Hollendingar áttu þrjá menn á palli en þeir hafa haft mikla yfirburði í skautahlaupinu og eru búnir að vinna sjö af fyrstu níu verðlaunum á leikunum.
Michel Mulder vann með minnsta mögulega mun en hann varð aðeins 0,01 sekúndu á undan landa sínum Jan Smeekens. Mulder kom í mark á 69,31 sekúndum en tími Smeekens var 69,32 sekúndur.
Jan Smeekens náði bestum árangri Hollendinga á leikunum í Vancouver fyrir fjórum árum þegar hann endaði í sjötta sæti en verðlaunin fóru þá til Suður-Kóreu (gull) og Japans (silfur og brons).
Michel Mulder er tíu mínútum yngri en tvíburabróðir sinn Ronald Mulder en Michel var 15 sekúndubrotum á undan Ronald í úrslitum 500 metra skautahlaupsins. Þeir eru báðir fæddir 27. febrúar 1986 og það styttist því í 28 ára afmælisdaginn.
Þetta er fyrsta Ólympíugull Michel Mulder á ferlinum en hann hefur unnið tvö gull á heimsmeistaramótum, 2013 og svo á dögunum í Nagano í Japan.
Michel og Ronald Mulder urðu með þessu aðeins aðrir bræðurnir í sögu Vetrarleikana til að vinna verðlaun í sömu grein en fyrir þrjátíu árum unnu Bandaríkjamennirnir Phil og Steven Mahre gull og silfur í svigi á Ól í Sarajevo 1984.



