Hinn 39 ára Alexander Zubkov frá Rússlandi vann loksins gullverðlaun bobsleðakeppni en hann fagnaði sigri ásamt Alexey Voevoda í tvímenningi í dag.
Zubkov fékk silfur í fjórmenningi á leikunum í Tórínó árið 2006 og svo brons í tvímenningi í Vancouver fyrir fjórum árum síðan.
Fáir áttu von á að Zubkov myndi vinna sigur í dag enda hafði hann ekki unnið neina af þeim 25 keppnum sem hann hafði tekið þátt í undanfarin þrjú ár.
En þeir Zubkov og Voevoda höfðu mikla yfirburði í dag og komu í mark á 0,66 sekúndum á undan svissneska parinu Beat Hefti og Alex Baumann.
Það var svo tilfinningaþrungin stund þegar Bandaríkjamennirnir Steven Holcomb og Steve Langton unnu bronsverðlaun en það voru fyrstu Ólympíuverðlaun Bandaríkjanna í greininni síðan 1952.

