Hohenlohe stofnaði Skíðasamband Mexíkó árið 1981 og hefur síðan tekið þátt í fimm Vetrarólympíuleikum fyrir hönd Mexíkó. Hann var með á ÓL í Sarajevo 1984, ÓL í Calgary 1988, ÓL í Albertville 1992, ÓL í Lillehammer 1994 og ÓL í Vancouver 2010 þar sem hann var eins og nú eini keppandinn frá sínu landi.
Aðalástæðan fyrir því að prinsinn Hubertus of Hohenlohe-Langenburg mætir á Vetrarólympíuleikana segir hann vera til þess að vekja athygli á vetrargreinunum í heitu löndunum í heiminum. Það er hinsvegar ekki mikið um snjó í Mexíkó eins og allir vita.
Þetta verða sjöttu Ólympíuleikarnir hans en fyrir fjórum árum varð hann 46. í svigi og 78. í stórsvigi. Bestum árangri náði hann í Sarajevo 1984 þegar hann varð í 26. sæti í svigi.
Hubertus of Hohenlohe-Langenburg er fæddur 2. febrúar 1959 og verður annar elsti keppandinn á Vetrarólympíuleikunum frá upphafi þegar hann rennir sér niður brekkuna á ÓL í Sotsjí.
Hohenlohe-Langenburg er ekki bara skíðamaður og þýskur prins því hann er einnig ljósmyndari, viðskiptamaður og poppsöngvari sem kemur undir nöfnunum Andy Himalaya eða Royal Disaster, Konunglega stórslysið.
Þeir sem hafa áhuga á tónlistarferli kappans geta smellt hér fyrir neðan á myndband hans við lagið Higher than Mars.


