Handbolti

Aron: Allir gáfu allt sitt í leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var hæstánægður með frammistöðu sinna manna í leiknum gegn Austurríki í kvöld.

Strákarnir unnu sex marka sigur, 33-27, en þeir spiluðu stórvel í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik.

„Ég er mjög ánægður með framlagið hjá strákunum. Einbeitingin var góð og allir sem komu inn á gáfu allt sitt,“ sagði Aron í viðtali við Rúv eftir leikinn. „Þeir spiluðu á fullu allt til enda.“

„Við vorum búnir að undirbúa okkur virkilega vel fyrir þennan leik og því var ég rólegur fyrir leikinn. Ég er mjög ánægður með hvernig strákarnir leystu verkefnið.“

„En þetta var bara einn góður leikur. Næst spilum við með Makedóníu og hann þurfum við að vinna - og það með eins mörgum mörkum og við mögulega getum. Hvert mark getur skipt máli ef við verðum jafnir Ungverjum að stigum eftir milliriðlakeppnina.“

„Það gæti líka skipt miklu máli ef Danir tapa fyrir Spánverjum í kvöld,“ bætti Aron við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×