Íslenska handboltalandsliðið má tapa með fjórum mörkum á móti Þjóðverjum á eftir og samt vinna æfingamótið í Þýskalandi. Þetta varð ljóst eftir að Austurríki vann eins marks sigur á Rússum, 31-30, í fyrri leik dagsins.
Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu unnu Þjóðverja og Rússa á mótinu en töpuðu síðan með átta mörkum á móti Íslandi í gær.
Það tap þýðir að liðið getur ekki unnið mótið en Austurríki verður í öðru sæti taki Ísland stig af Þjóðverjum í lokaleik mótsins í kvöld.
Parrekur tók mjög gott leikhlé þegar lið hans var tveimur mörkum undir í seinni hálfleiknum og strákarnir hans svöruðu með frábærum spretti sem skilaði þeim fjögurra marka forskoti.
Rússar náðu að minnka aftur muninn í eitt mark en austuríska liðið hélt út og tryggði sér góðan sigur. Robert Weber skoraði 9 mörk fyrir Austurríki og Roland Schlinger var með átta mörk.
Patrekur stýrði Austurríki til sigurs á móti Rússum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
