Handbolti

Besta marka-ár Guðjóns Vals með landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Vilhelm
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, náði að rjúfa hundrað marka múrinn á árinu þrátt fyrir að íslenska liðið spilaði aðeins þrettán leiki.

Guðjón Valur missti ekki úr leik og skoraði yfir átta mörk að meðaltali sem skilaði honum yfir hundrað marka múrinn í áttunda sinn á fimmtán ára landsliðsferli hans.

Guðjón Valur skoraði 41 mark í sex leikjum á HM á Spáni og varð þar sjöundi markahæstur þrátt fyrir að Ísland dytti út í sextán liða úrslitunum.

Guðjón Valur skoraði 41 mark í fjórum síðustu leikjum Íslands í undankeppni EM þar sem liðið tryggði sér sæti á EM í Danmörku og varð um leið markahæsti leikmaður undankeppninnar.

Guðjón Valur endaði síðan árið á því að skora 18 mörk í tveimur æfingaleikjum á móti Austurríki en með því komst hann yfir hundrað marka múrinn.

Guðjón Valur skoraði 8,08 mörk að meðaltali í leik í landsleikjum ársins og er þetta langhæsta meðalskor hans á landsliðsári. Guðjón Valur er orðinn 34 ára en hefur sjaldan verið betri. Hans besta meðalskor fyrir þetta ár var þegar hann skoraði 7,4 mörk í leik árið 2009 en Guðjón Valur lék þá reyndar bara fimm leiki.

Ábyrgðin hefur aukist eftir að hann tók við fyrirliðabandinu af Ólafi Stefánssyni og það er óhætt að segja að Guðjón Valur hafi svarað kallinu enda með 7,3 mörk að meðaltali í leik undanfarin tvö ár.

Guðjón Valur og félagar í landsliðinu hittast um áramótin þar sem lokaundirbúningur liðsins hefst fyrir EM í Danmörku. Þar getur liðið vonandi áfram treyst á heimsklassaframlag frá járnmanninum í vinstra horninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×