Fótbolti

Ísland gæti lent með Gíbraltar í riðli í næstu undankeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty

Gíbraltar var í dag tekið inn í Knattspyrnusamband Evrópu og verður 54. meðlimur samtakanna. Ísland gæti því hugsanlega lent í riðli með Gíbraltar í undankeppni EM 2016.

Gíbraltar sótti fyrst um aðild árið 1999 en Spánverjar hafa alla leið barist á móti aðild þessarar bresku nýlendu og hafa meðal annars hótað að sniðganga keppnir á vegum UEFA. Gíbraltar er landsvæði við norðurhluta Gíbraltarsunds og með landamæri að Spáni.

Það hjálpaði málstað Gíbraltar-manna að Alþjóða íþróttadómstóllinn úrskurðaði að Gíbraltar hefði fulla rétt á aðild í sambandinu. UEFA-þingið samþykkti með miklu yfirburðum í dag að Gíbraltar fengi fulla aðild en Gíbraltar hafði fengið bráðabirgðaaðild í október.

Gíbraltar er 6,5 ferkílómetrar að flatarmáli og íbúarnir eru rétt tæplega 28 þúsund. Knattspyrnusamband landsins, GFA, var stofnað árið 1895 og er eitt af elstu knattspyrnusamböndum í heiminum. Það eru 22 knattspyrnufélög í landssambandinu og 160 leikmenn skráðir virkir. Lincoln FC er sterkasta félagið og hefur orðið meistari undanfarin sex tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×