Fótbolti

Arnar Þór hefur ekkert hugsað um landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson í landsleik.
Arnar Þór Viðarsson í landsleik. Mynd/Nordicphotos/Bongarts
Arnar Þór Viðarsson er í fámennum hópi en aðeins 21 leikmaður á meira en 50 landsleiki að baki. Arnar hefur spilað 52 landsleiki á ferlinum en á þó ekki sérstaklega góðar minningar frá síðasta landsleik, en þá tapaði Ísland fyrir Liechtenstein ytra, 3-0.

Eyjólfur Sverrisson hætti sem landsliðsþjálfari eftir leikinn og Arnar hlaut aldrei náð fyrir augum Ólafs Jóhannessonar, sem tók við. „Ég sé ekki eftir neinu og er mjög sáttur við minn feril," segir Arnar.

„Það hefur aldrei skipt mig máli hvað öðrum finnst um mig – bara að fólkið sem þekkir mig og hefur unnið með mér sé sátt við mig."

Lars Lagerbäck er nýtekinn við íslenska landsliðinu og með nýjum þjálfara koma ný tækifæri fyrir leikmenn.

„Hver þjálfari velur sitt sterkasta lið hverju sinni. Ef ég er ekki hluti af því þá er það bara þannig," segir Arnar, sem hefur þó auðvitað sínar skoðanir á þessum málum.

„Ég teldi það eðlilegt ef leikmaður sem væri búinn að vera í atvinnumennsku í öll þessi ár og enn að spila í hverri viku teldi sig nógu góðan fyrir landsliðið. En staðreyndin er sú að það eru 3-4 ár síðan ég talaði við landsliðsþjálfara síðast og ef kallið kæmi nú myndi ég bara skoða það. Ég hef ekki verið að velta þessum málum fyrir mér. Kannski hefur það hjálpað mér hjá mínu félagsliði að hafa ekki verið að spila og ferðast með landsliðinu á sama tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×