Fótbolti

Úttekt hjá VG: Langfæst mörk innan íslenska landsliðshópsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Norska blaðið VG hefur gert úttekt á því hversu mörg landsliðsmörk leikmenn liðanna í riðli Noregs (og Íslands) hafa skorað á sínum landsliðsferli. Blaðið fer yfir landsliðshópa þjóðanna fyrir leikina í undankeppni HM í kvöld og þar má sjá að leikmenn í íslenska landsliðshópnum hafa skorað langfæst mörk.

Blaðamaður VG gerir mikið úr því að Svíinn Zlatan Ibrahimovic hafi skorað fleiri landsliðsmörk en allir núverandi landsliðsmenn Norðmanna en Zlatan hefur ennfremur skorað 14 mörkum fleira en allur íslenski hópurinn.

Það er enginn Eiður Smári Guðjohnsen eða Kolbeinn Sigþórsson í íslenska hópnum að þessu sinni og það munar um þá kappa í þessari tölfræðiúttekt VG. Allir núverandi íslensku landsliðsmennirnir eru samanlagt með 18 mörk í 366 leikjum.

Norðmenn eru með 29 mörk innan síns hóps og hefur norski blaðamaðurinn áhyggjur af því en alls hafa leikmenn norska hópsins leikið 418 sinnum fyrir norska landsliðið.

Albanir, mótherjar Íslands í kvöld, hafa 38 landsliðsmörk innan síns hóps eða sjö meira en Slóvenar. Svisslendingar hafa skorað 45 mörk í 484 leikjum en á toppnum eru Kýpverjar með 59 mörk í 450 leikjum.

VG bendir líka á það að sænski hópurinn er með 119 mörk, sá enski er með 108 mörk og að sjálfsögðu eru Spánverjar á toppnum með 174 mörk innan núverandi hóps eða tæplega tíu sinnum meira en íslenski landsliðshópurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×