Enski boltinn

Dempsey: Ég vil spila í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Clint Dempsey.
Clint Dempsey. Mynd/Nordic Photos/Getty
Clint Dempsey átti frábært tímabil með Fulham í ensku úrvalsdeildinni og skoraði alls 23 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni. Svo gæti farið að Dempsey yfirgefi Craven Cottage í sumar en hann á bara eitt ár eftir af samningi sínum og hefur talað opinberlega um áhuga sinn að komast í sterkara lið.

„Þeir voru búnir að bjóða mér nýjan samning en ég vildi bara einbeita mér að fótboltanum og að því að klára tímabilið af krafti," sagði Clint Dempsey í viðtalið við bandaríska blaðið Sports Illustrated..

„Ég er þakklátur fyrir allt sem Fulham hefur gert fyrir mig og minn feril. Margar af bestu minningum mínum eru frá tíma mínum hér," sagði bandaríski landsliðsmaðurinn en það er ekki að heyra annað en að hann vilji komast í stærra félag.

„Staðreyndin er sú að ég vil fá að spila í Meistaradeildinni því ég vil spila á eins háu stigi og mögulegt er," sagði Clint Dempsey Dempsey er 29 ára gamall og hefur spilað með Fulham frá 2007.

„Ég vil ná eins langt á mínum ferli og mögulegt er því ég vil geta litið til baka og séð það að ég hafi ýtt öll tækifærin sem buðust mér. Ég hef alltaf stefnt á það að spila í Meistaradeildinni og það er eitthvað sem hefur ekki enn tekist hjá mér," sagði Dempsey

„Ég vil fá að prófa mig í Meistaradeildinni og fá að vita það hvort að ég sé nógu góður til þess að spila þar," sagði Dempsey.

Clint Dempsey skoraði 17 mörk í 37 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og hefur þar með hækkað markaskor sitt á hverju tímabili. Hann skoraði 12 mörk 2010-11 og 7 mörk tvö tímabil þar á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×