Heims – og ólympíumethafinn í 100 metra hlaupi karla, Usain Bolt frá Jamaíku, virðist í góðu ástandi í aðdraganda Ólympíuleikana sem fram fara í London í sumar. Bolt náði besta tíma ársins í greininni í gær þegar hann hljóp á 9,82 sekúndum á móti sem fram fór í Kingston.
Tveir keppendur voru dæmdir úr leik fyrir þjófstart en Bolt lét það ekki á sig fá og kom í mark á frábærum tíma. Þetta er fyrsta mótið hjá Bolt á þessu ári. Hlauparar frá Jamaíku röðuðu sér í þrjú efstu sætin en Michael Frater varð annar á 10,00 sek. og Lerone Clarke kom í mark á 10,03 sek.
„Ég er í betra ástandi á þessum tíma árs en fyrir ári síðan, en ég á nóg inni. Þjálfarinn minn Glen Mills sá nokkur atriði í þessu hlaupi sem ég þarf að gera betur," sagði Bolt en hann náði ekki að verja heimsmeistaratitil sinn á síðasta HM þar sem hann var dæmdur úr leik fyrir þjófstart. Heimsmet hans í 100 metra hlaupi er 9,58 sek og 19,19 sek í 200 metra hlaupi.
Usain Bolt náði besta tíma ársins | 9,82 sek.
