Skoðun

Upplýst umræða um erfðabreyttar lífverur?

Jón Hallsteinn Hallsson skrifar
Sandra B. Jónsdóttir ráðgjafi hefur nú með stuttu millibili birt tvær greinar í Fréttablaðinu þar sem hún gerir að umfjöllunarefni sínu erfðabreyttar lífverur.

Svar mitt við fyrri grein Söndru birtist í Fréttablaðinu 20. október sl. en þar gerði ég alvarlegar athugasemdir við rangtúlkanir hennar á vísindalegum niðurstöðum. Í seinni grein sinni sem birtist þann 25. október sl. vísar Sandra í nokkurn fjölda vísindagreina máli sínu til stuðnings og mætti í fyrstu halda að greinin væri vísir að upplýstri umræðu um málefnið. Svo er því miður ekki og sé ég mig því áfram knúinn til að leiðrétta nokkur atriði í máli Söndru.

Sandra vísar m.a. í niðurstöður Vázquez-Padrón o.fl. (1-3) og telur þær gefa vísbendingar um „að neysla erfðabreyttra matvæla sem innihalda Bt-eitur kunni að valda ofnæmis viðbrögðum og viðkvæmni gagnvart öðrum matvælum“.

Niðurstöðurnar sem um ræðir eru í sjálfu sér áhugaverðar en hér eins og svo oft gengur Sandra of langt í ályktunum sínum. Vázquez-Padrón o.fl. könnuðu hvort próteinið Cry1Ac gæti valdið ónæmisviðbrögðum í músum og þó svo að músin sé um margt skyld manninum þá er ekki sjálfgefið að niðurstöðurnar megi yfirfæra á manninn eins og Sandra kýs að gera.

Hér er jafnframt mikilvægt að gera greinarmun á ónæmissvari og ofnæmi, en Vázquez-Padrón o.fl. minnast hvergi á ofnæmi í greinum sínum. Þá er einnig rétt að benda á að yfir eitt hundrað tegundir matvæla geta valdið ofnæmi í mönnum og eru þau viðbrögð í flestum tilfellum vegna próteina, en engin dæmi eru þekkt um ofnæmi gegn Cry próteinum í mönnum þrátt fyrir áratuga langa notkun þeirra í landbúnaði.

Sandra vísar líka í rannsóknir sem sýna eiga fram á „áhrif á þróaðri spendýr“, þ.m.t. rannsókn Trabalza-Mainucci o.fl. (4) á sauðfé sem hún segir að hafi „[leitt] í ljós truflun á starfsemi meltingarkerfis í kindum sem fóðraðar voru á Bt-maís í þrjár kynslóðir og á starfsemi lifrar og briss í lömbum þeirra“.

Þessi niðurstaða Söndru er úr lausu lofti gripin. Í grein Trabalza-Mainucci o.fl. er tekið fram að erfðabreytta fóðrið hafði engin áhrif á heilbrigði dýranna og ekki sáust nein áhrif á aðra þætti sem skoðaðir voru. Það eina sem reyndist ólíkt milli hópa var að forathugun á frumum úr lifur og brisi leiddi í ljós mun, en sá munur virtist ekki hafa nein mælanleg áhrif á heilbrigði dýranna.

Í tilvísun sinni í rannsóknir Duggan o.fl. (5) gerir Sandra þau klaufalegu mistök að slá saman tveimur óskyldum tilraunum þannig að úr verða niðurstöður sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Hér verður til í meðförum Söndru erfðabreytt örvera úr meltingarvegi sem þolin er fyrir sýklalyfjum og kallar Sandra bakteríu þessa „superbug“. Í reynd eru niðurstöðurnar óralangt frá þessu. Annars vegar var um að ræða athugun á niðurbroti DNA í meltingarvegi þar sem notast var við maís erfðabreyttan með Bt-geni og hins vegar rannsókn á því hvort nota mætti plasmíð (sem er lítil hringlaga DNA sameind) sem velkst hafði um í munnholi kindar til að ummynda bakteríur. Það er rétt athugað hjá Söndru að Duggan o.fl. fundu DNA úr maís í vömb en þeir taka jafnframt fram að uppruni þess sé að öllum líkindum úr ómeltum plöntuleifum og að óvarið DNA sé ólíklegt til að lifa lengi í vömbinni.

Að lokum er rétt að minnast á umfjöllun Söndru um rannsóknir Aris og Leblanc (6) og það sem hún telur að séu vísbendingar um „flata genatilfærslu“. Hér verður Söndru enn á ný fótaskortur þar sem hún virðist ekki gera greinarmun á DNA og próteini, en þeir Aris og Leblanc mældu Cry1Ab próteinið en ekki DNA í blóðsýnum og minnast hvergi í grein sinni einu orði á „flata genatilfærslu“. Hvernig Sandra tengir þetta tvennt saman er mér óskiljanlegt.

Þrátt fyrir að Sandra vísi í ritrýndar vísindagreinar máli sínu til stuðnings og leitist þannig við að ljá umfjöllun sinni yfirbragð upplýstrar umræðu þá er niðurstaðan sú að umfjöllunin líður mjög fyrir takmarkaða þekkingu Söndru á viðfangsefninu. Það hvernig Sandra slær saman ótengdum tilraunum í grein Duggan o.fl. (5) og það að hún gerir ekki greinarmun á DNA og próteinum er umhugsunarvert og hlýtur að vekja upp spurningar um skilning Söndru á því efni sem hún fjallar um.

Að lokum get ég því ekki annað en hvatt Söndru til að kynna sér betur efni þeirra greina sem hún fjallar um á opinberum vettvangi og lesendur jafnframt til að lesa greinar Söndru um þessi málefni eftirleiðis með gagnrýnum huga.

(1) Vázquez-Padrón o.fl. 2000. Brazilian Journal of Medical and Biological Research, 33[2], pp.147-155.

(2) Vázquez-Padrón o.fl. 2000. Biochemical and Biophysical Research Communications, 271[1], pp.54-58.

(3) Vázquez-Padrón o.fl. 1999. Life Sciences, 64[21], pp.1897-1912.

(4) Trabalza-Marinucci o.fl. 2008. Livestock Science, 113, pp.178-190.

(5) Duggan o.fl. 2003. The British Journal of Nutrition, 89[2], pp.159-166.

(6) Aris og Leblanc. 2011. Reproductive Toxicology, 31[4], pp.528-533.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×