Skoðun

Heilindi og gagnsæi gefa norrænu samstarfi byr í seglin

Hryðjuverkin í Ósló og á Útey á liðnu sumri reyndu á opin samfélög Norðurlanda. Viðbrögð þjóðanna og samhugur þeirra með Norðmönnum báru vott um ósvikin heilindi þeirra – og samkennd.

Þegar framin eru hryðjuverk er yfirleitt brugðist við með hertu eftirliti og þvingunaraðgerðum en Norðmenn völdu aðra leið. Þrátt fyrir óhug og sorg ríkti einhugur um að standa vörð um opið og lýðræðislegt samfélag. Þegar Knut Storberget‚ dómsmálaráðherra Noregs‚ tjáði sig opinberlega um verknaðinn komst hann svo að orði að norskt samfélag hefði brugðist við á dæmigerðan norrænan hátt. Fyrir vikið áunnu Norðmenn sér virðingu um allan heim.

Dagana 1.–3. nóvember heldur Norðurlandaráð sitt árlega þing og verður samstarfsvettvangur þingmanna nýttur til þess að efla gagnsæi á Norðurlöndum. „Hin opnu norrænu samfélög“ er yfirskrift leiðtogafundar forsætisráðherranna og þingmanna í Norðurlandaráði á opnunardegi þingsins.

Það er fagnaðarefni að nýjar ríkisstjórnir í Finnlandi og Danmörku hafa lýst yfir vilja til að efla norrænt samstarf. Það skulum við hafa hugfast þegar við aukum skilvirkni í samstarfinu og eflum aðgerðir til að auka gagnsæi.

Samstarfið hefur verið gagnrýnt fyrir seinagang en á þinginu verður rætt hvernig bæta megi úr því. Mikilvægt er að Norræna ráðherranefndin bregðist fyrr við tillögum frá Norðurlandaráði. Eins er lagt til að haldin verði aukaþing að vori til þess að flýta fyrir og jafnvel fjölga ákvörðunum.

Við verðum að standa vörð um opin samfélög okkar en einnig að hafa áhrif á umheiminn í kringum okkur. Norðurlandabúar eru um 25 milljónir talsins og því nógu fjölmennir til að láta að sér kveða. Hin opnu samfélög eru tromp á hendi okkar meðal annarra þjóða.

Á undanförnum árum hafa Norðurlönd staðið sig vel í samanburði við aðrar þjóðir en engu að síður verðum við að efla nýsköpun og nýta okkur einstaka kjarnahæfni ef við eigum að standast alþjóðlega samkeppni. Sú hæfni byggist á menningu okkar‚ er helsti styrkur okkar og veitir okkur sérstöðu. Við búum til dæmis við einhverja minnstu spillingu í heimi og það má ekki síst þakka því gagnsæi sem löngum hefur einkennt samfélög okkar.

Við verðum að standa ótrauð vörð um hið opna lýðræðissamfélag og jafnvel af meiri einurð en áður. Með aukinni skilvirkni vill Norðurlandaráð auka pólitískt vægi samstarfsins. Stefnt er að því að gefa stjórnmálamönnum æ fleiri tilefni til að láta sig varða og gefa sig alla að málefnum og bregðast tímanlega við.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×