Skoðun

Fjölmiðlar hvetja til eineltis

Það er ekki laust við að það örli á smá holhljóði í fjölmiðlum þessa dagana vegna hörmulegs sjálfsvígs ungs drengs í Sandgerði á dögunum og umræðu um einelti vegna þessa atviks.

Sumir íslenskir fjölmiðlar, þar sem DV trónir á toppnum og Eyjan og tengdir miðlar koma fast á hæla þess, hafa nefnilega ástundað það að leggja einstaklinga í einelti með háði og spotti og eru litlu skárri en illkvittnir krakkar á skólalóð en viðkomandi blaðamenn eiga þó að heita þroskað og fullorðið fólk. Þessir miðlar opna síðan skítaflórinn sinn fyrir smásálum með geðræna kvilla sem hafa lítið annað fyrir stafni í lífinu en ausa yfir þetta sama fólk óhróðri og svívirðingum í svokölluðum athugasemdareitum.

Því miður lesa menn þetta og smátt og smátt síast það inn hjá fólki, unglingum og börnum að það sé bara allt í lagi að fara um í hópum og draga einstaklinga sundur og saman í háði og rógi á opinberum vettvangi. Börnin fara í skólann og ástunda sama eineltið og stríðnina og Reynir Traustason á DV og Karl Th. Birgisson á eyjan.is. Það læra jú börnin sem fyrir þeim er haft.

Íslenskir blaðamenn og ritstjórar ættu að líta sér nær um leið og þeir fjalla um þá miklu sorg sem hélt innreið sína í Sandgerði eða reyna með vitrænum hætti að fjalla um einelti, því þeir eru með hinni nýju blaðamennsku, beint og óbeint, að stuðla að einelti meðal barna og unglinga.

Vissulega er einelti vandamál í skólum sem ber að stemma stigu við en ekki síður er þörf á Olveusaráætlun hjá íslenskum fjölmiðlum þar sem innleidd yrði vönduð og og heiðarleg blaðamennska þar sem ritstjórarnir hætta að haga sér eins og forsprakkarnir á skólalóðinni sem velja það skólasystkini sem næst skal leggja fæð á.




Skoðun

Sjá meira


×