Skoðun

Er raforkuverð til stóriðju hér lægra?

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Í fimmtu og síðustu grein minni um vægi áliðnaðar á Íslandi fjalla ég um raforkuverð til stóriðju í alþjóðlegu samhengi.

Því er gjarnan haldið fram að raforkuverð til stóriðju sé langtum lægra hér á landi en gengur og gerist annars staðar. Af neðangreindum samanburði má hins vegar sjá að sú er alls ekki raunin. Eftir því sem næst verður komist eru áform uppi um 35 ný álver í heiminum á næstu árum. 25 þessara verkefna eru áformuð í Asíu, þrjú í Mið-Austurlöndum, fjögur í Evrópu (Rússlandi, Aserbaídsjan og Íslandi), tvö í Kanada og eitt í Argentínu. Samanlögð framleiðslugeta þessara álvera yrði um 16 milljónir tonna, yrðu þau öll byggð.

Raforkuverð til þeirra verkefna sem áformuð eru í Kína og Indlandi er að meðaltali nokkuð hærra en hér á landi, eða liðlega 40 USD/MWh. Á móti vegur hins vegar að fjárfestingarkostnaður við byggingu nýs álvers í Kína er áætlaður um þriðjungur af því sem það kostar að reisa nýtt álver á Vesturlöndum.

Fyrir vikið eru þessi álver með nokkuð lægri framleiðslukostnað, þrátt fyrir hærra raforkuverð.

Rafmagnskostnaður hinna tíu verkefnanna er talinn vera á bilinu 20-25 USD/MWh að meðaltali. Þetta er liðlega 30% lægra verð en áliðnaður hér á landi er að greiða í dag miðað við núverandi stöðu álverðs. Raunar eru aðeins tvö verkefni áformuð utan Kína eða Indlands þar sem áætlað raforkuverð er hærra en 25 USD/MWh.

Raforkufrekur iðnaður flýr hátt orkuverð í Evrópu

Það vekur líka athygli að ekkert verkefni er áformað í aðildar-ríkjum ESB né í Noregi, en í umræðunni að undanförnu hefur mikið borið á samanburði á raforkuverði hér á landi og á þessum markaðssvæðum. Staðreyndin er sú að raforkuverð í þessum löndum er farið að fæla orkufrekan iðnað frá. Raunar er það svo að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er farin að skoða alvarlega að heimila niðurgreiðslu á raforkuverði til orkufreks iðnaðar til þess að sporna gegn þessari þróun. Þegar borin er saman samkeppnisstaða Íslands gagnvart öðrum löndum hvað varðar orkufrekan iðnað verður að horfa til markaðssvæða þar sem uppbygging er að eiga sér stað – ekki markaðssvæða þar sem þessi iðnaður er á undanhaldi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×