Innlent

Landsdómur verði lagður niður - forseti skipi dómara

Stjórnlagaráð leggur til að Landsdómur verði lagður niður og að forseti Íslands skipi dómara og veiti þeim lausn. Þá er lagt til að náttúra Íslands verði friðhelg og hverjum og einum beri að virða hana.

Fimmtándi ráðsfundur Stjórnlagaráðs sem nú vinnur að tillögum að nýrri Stjórnarskrá hófst í morgun. Á fundinum lagði A-nefnd ráðsins fram þrjár tillögur um náttúru Íslands og umhverfi til afgreiðslu inn í áfangaskjal.

Þar er meðal annars lagt til að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, skuli vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn geti fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota.

Í tillögunum er jafnfram kveðið á um að náttúra Íslands sé friðhelg og hverjum og einum beri að virða hana. Öllum skuli tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru.

Þá leggur C-nefnd Stjórnlagaráðs fram breytingartillögu að kafla um dómsvaldið. Kaflinn telur sjö ákvæði en í núverandi stjórnarskrá eru þrjú ákvæði um dómstóla.

Þar ber helst að nefnd að lagt er til að forseti Íslands skipi dómara og veiti þeim lausn. Þá skuli tryggja með lögum að hæfni og málefnanleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara.

Loks er lagt til að Landsdómur verði lagður niður og verkefni hans verði færð til almennra dómstóla. Einnig er lögð fram breytingartillaga um utanríkismál, þar sem meðal annars kemur fram að forseti Íslands skuli fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×