Innlent

Efast um lögmæti landsdóms

Sigurður Líndal
Sigurður Líndal
Vafi leikur á hvort landsdómur standist Mannréttindasáttmála Evrópu. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, benti á í grein á laugardag að samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu verði allir að eiga þess kost að mál þeirra sé tekið fyrir á tveimur dómstigum. „Landsdómur uppfyllir ekki þetta skilyrði. Hann er því ónothæfur,“ skrifar Þorsteinn.

Sigurður Líndal lagaprófessor tekur undir að það séu ýmis álitamál um landsdóm sem þurfi að huga að. Hann bendir hins vegar á að í Danmörku sé áþekkur landsdómur og úrskurðum hans sé ekki hægt að áfrýja. Hann bendir á að í svonefndu Tamíla-máli hafi landsdómur dæmt Erik Ninn-Hansen, þáverandi dómsmálaráðherra, í fangelsi. Ninn-Hansen hafi skotið málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu en því hafi verið vísað frá og dómurinn því staðið. Sigurður tekur hins vegar fram að hann hafi ekki náð að kynna sér úrskurð Mannréttindadómstólsins til hlítar og geti því ekki fullyrt um fordæmisgildi málsins.

Sigurður tekur ekki jafn djúpt á árinni og Þorsteinn um að landsdómur sé ónothæfur. Hann segir að hugsanlega væri að hægt setja á laggirnar yfirrétt sem hægt væri að áfrýja til. „Einnig eru tiltölulega rúmar heimildir til endurupptöku mála fyrir landsdómi og það gæti mögulega bjargað þessu fyrir horn. En í öllu falli er ljóst að það þarf að leggjast yfir þetta áður en landsdómur er kallaður saman.“ - bs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×