Skoðun

Býðst einhver til að axla 23 milljarða ábyrgð vegna REI?

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Í heitum umræðum undanfarinna vikna hefur farið undarlega lítið fyrir einum veigamiklum þætti REI-málsins: Glitnir bauðst í nóvember sl. til að tryggja kaupverð á REI að lágmarki

23.000.000.000 kr. (tuttugu og þrír milljarðar króna!). REI er skv. fréttum sl. helgar metið á 6 milljarða, ef þá það, og er nú að sönnu vandræðabarn sem engan virðist fýsa að ættleiða eftir að guðfaðirinn Bjarni Ármannsson kvaddi krógann og kærleiksheimili hans í hasti.

Stóri ágreiningurinn sem Bingi gerði um málið við Vilhjálm Þórmund fv. borgarstjóra snerist um að Vilhjálmur Þórmundur vildi selja REI strax en Bingi vildi bíða og sjá. Miðað við stöðuna í dag mætti ætla að Vilhjálmur Þórmundur væri viðskiptaséní með hárrétta tilfinningu fyrir tímasetningum og hámörkun arðsemi, og að einhver allt annar en hann þyrfti að axla ábyrgð á öllum þeim milljörðum sem nú skortir upp á 23 milljarða dílinn sem Glitnir bauð þá – en alls ekki nú.

Með fyrrnefndum ágreiningi um tímasetningu REI-sölunnar réttlætti Bingi þá fordæmalausu ákvörðun sína að slíta fyrirvaralaust borgarstjórnarmeirihlutanum með sjálfstæðismönnum og máta eyrnablöðkur sínar við mælskulist Svandísar Svavarsdóttur Gestssonar úr Vg, en tungulipurð hennar og hárfínar tímasetningar dáleiddu um hríð bæði meirihluta borgarfulltrúa og almennings í landinu. Gekk sá málflutningur að mestu út á meinta kaupréttarsamninga útvalinna, sem hún tók að vísu sjálf þátt í að velja, en einkum þó hina ófyrirgefanlegu meintu yfirsjón Vilhjálms Þórmundar að REI/GGE fengi 20 ára forgang á að kaupa sérþekkingu nokkurra reynslubolta í OR. Þetta hefði að vísu markað vatnaskil í rekstri OR því engum hafði áður hugkvæmst að koma slíkri innanhúsþekkingu í verð, hvað þá með 20 ára samningi. Frábær búhnykkur hefðu sumir sagt, en það gleymdist reyndar í allri umræðunni um 20 árin að sérfræðiþekkingu á borð við þá sem OR býr yfir er auðveldlega hægt að sækja að mestu á verkfræðistofur víða um land og nauðaeinfalt væri sömuleiðis að kippa einstökum sérfróðum starfsmönnum út úr OR með örlitlum yfirboðum.

En yfirþyrmandi vandlætingar- og orrahríðir sósíalískra hispursmeyja megnuðu alltént við árslok að drepa allan samansafnaðan viðskiptalosta í langþráðri orkuútrás Reykvíkinga. Náttúra kapítalistanna skyldi bæld með ráðum og dáð. Á sömu bæjum er jafnhliða velt reiðum vöngum, reytt hár og kvartað yfir óskiljanlega bágum hlut kvenna í framlínu viðskiptalífsins.

Á meðan borgarbúar horfðu upp á 23 milljarðana sína gufa upp, stóðu Vinstri grænar í ströngu niðri á Alþingi, á kafi í öðru stórmáli sem enga bið þoldi, sumsé að tryggja algert skírlífi íslenskra erindreka í útlöndum og fyrirbyggja með lagasetningum að sendimenn hins opinbera freistist til að ramba t.d. inn á hótel með léttbláum sjónvarpsrásum. Hér er græna kvenfélagið hans Steingríms J. sannarlega á heimavelli og í essinu sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft, er það auðvitað tilhugsunin um refsivönd þessara sómakæru og skírlífu kerlinga af báðum kynjum sem helst getur veitt það aðhald og þá siðvöndun sem við hin þurfum öll svo nauðsynlega á að halda um þessar mundir. Sjálfsagt er svo auðvitað að fylgja þessu þarfa máli eftir með stofnun sérstakrar siðgæðislögreglu í stíl við þá sem tíðkast í sumum múslímskum ríkjum. Löggjafarvald er vanmáttugt án framkvæmdavalds.

Þær fáu krónur sem eftir eru í REI skúffunni væru e.t.v. best nýttar til að reisa andvana örlagabarni REIðileysisins e.k. minnisvarða, og þá helst í anddyri Orkuveitunnar. Væri 23 karata kross viðeigandi? Á öðrum ásnum gæti hangið lítill Gullhjálmur og Þórshamar þá hinum megin?

Eða mundi e.t.v. betur hæfa stytta af bjartri meyju og hreinni í svanhvítri skikkju með kolbrúnan brand á lofti, í vel reyrðu skírlífisbelti skreyttu hamri og sigð, til brýningar í baráttunni endalausu gegn vammi og frygð?

Eftir stendur svo spurningin um alla milljarðana sem glutruðust í baráttunni á milli góðs og ills, milli skírlífis og saurlífis. Tuttugu og þrír milljarðar gæfu a.m.k. tvo og hálfan milljarð í hreinar vaxtatekjur á ári. Það væri hægt að gera ýmislegt fyrir slíkar fúlgur. Höfuðstóllinn einn dygði fyrir t.d. 1.000 nýjum þjónustuíbúðum, tugum nýrra dagheimila eða fyrir nýja Tónlistarhúsinu og hraðlest til Keflavíkur. Og væri þá nóg eftir.

Reykvíkingar hljóta að harma hlut sinn. Ætlar ekki örugglega einhver að axla ábyrgð?

Höfundur er tónlistarmaður.




Skoðun

Sjá meira


×