Skoðun

Fimm ára þrautaganga

Drífa Snædal skrifar
Ef vilji er fyrir hendi hjá meirihluta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er hægt að bæta stöðu kvenna sem verða fyrir heimilisofbeldi umtalsvert áður en þingi lýkur á föstudag.

Fyrir fimm árum síðan lagði Kolbrún Halldórsdóttir í fyrsta sinn fram frumvarp um brottvísun og heimsóknarbann að fyrirmynd austurrískra laga. Töluverðar umræður fóru þá fram um lögin og félagasamtök rómuðu frumvarpið sem skref í átt að auknu öryggi kvenna á heimilum.

Með frumvarpinu var lagt til úrræði til að vernda þá sem verða fyrir ofbeldi með því að fjarlægja ofbeldismenn af heimilinu og banna heimsóknir á heimilið og nánasta umhverfi þess í tíu daga til þrjá mánuði. Lögreglan fengi vald til að koma á þessu tímabundna nálgunarbanni.

Þrátt fyrir jákvæðar umsagnir og góðar ábendingar sem tekið var tillit til við áframhaldandi vinnslu frumvarpsins hefur það ekki enn fengist samþykkt. Síðast var það flutt árið 2006 sem sjálfstætt frumvarp og í fyrra var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar.

Síðan hefur ekkert gerst. Frumvarpið hefur verið í fimm ár til umfjöllunar hjá stjórnvöldum en niðurstaðan er sú að engra breytinga er að vænta af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er ekki viss um að þær konur hverra öryggi er ógnað dag hvern og fylla þröngt húsnæði Kvennaathvarfsins á meðan ofbeldismennirnir geta um frjálst höfuð strokið séu sammála þessu. Né þær konur sem hafa nægan styrk til að sækja um nálgunarbann og fá höfnun frá dómstólum af því það er „of íþyngjandi" fyrir ofbeldismennina að mega ekki halda áfram að beita ofbeldi.

Nú liggur tæknilegt frumvarp dómsmálaráðherra fyrir þinginu og Kolbrún Halldórsdóttir leggur til austurrísku leiðina í breytingatillögu við það frumvarp. Enn og aftur fær þingið tækifæri til að leiða austurrísku leiðina í lög hér á landi. Málið hefur verið til umfjöllunar í fimm ár og tæknilegar afsakanir ekki lengur teknar til greina.

Höfundur er framkvæmdastýra.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×