Skoðun

Er þetta lausnin?

Rósa Guðbjartsdóttir skrifaði í Fréttablaðið, laugardaginn 23. febrúar, grein um hvernig hækka ætti laun kennara. Þessi sama grein birtist í Fjarðarpóstinum fimmtudaginn 21. febrúar.

Það er gott mál að fólki finnist að laun og kjör kennara verði að bæta verulega. En er þetta virkilega lausnin? Að binda kennara frá kl. 8-17 og hækka þannig launin. Það er ekki kauphækkun. Af hverju er lausnin á kjaramálum kennara alltaf að auka vinnuna eða binda okkur niður? Af hverju er ekki bara hægt að hækka launin, punktur? Með þessari aðgerð væri algjörlega verið að koma í veg fyrir að ungt fólk á barneignar­aldri verði kennarar.

Meðan annars staðar í þjóð­félaginu er verið að auka sveigjanleika á vinnutíma, koma til móts við barnafólk og gera störfin fjölskylduvænni, þá á að binda vinnutíma kennara í ákveðinn ramma. Nú þegar er búið að lengja skólaárið og lengja skólatíma nemenda. Kennarar þurfa að sinna ákveðinni viðveruskyldu í skólanum sem þeir nota við undirbúning eða frágang. Oftar en ekki þurfa þó kennarar að taka verkefnin með sér heim s.s. á álagstímum í kringum próf og fleira. En það hentar oft ungu fjölskyldufólki að geta sótt börnin sín á skikkanlegum tíma til dagmömmu og í leikskóla og klára síðan vinnuna seinna um kvöldið þegar börnin eru komin í ró.

Nei, ég held að ef þetta vinnutímaviðkvæði verður sett í kjarasamninga kennara, þá fyrst mun fólksflótti úr stéttinni aukast. Þess vegna er brýnt að samningsaðilar í komandi kjaraviðræðum grunnskólakennara hlusti eftir því hvað kennarar telja að þurfi að gera svo að hagur þeirra og starfsánægja batni.

Höfundur er kennari og fulltrúi í Félagi grunnskólakennara í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×