Viðskipti innlent

Exorka fær 3 ný virkjanaleyfi í Þýskalandi

Exorka, dótturfélag Geysis Green Energy, hefur gengið frá kaupum á þremur leyfum fyrir jarðvarmavirkjanir í Bæjaralandi í Þýskalandi. Fyrir átti Exorka þar eitt virkjanaleyfi.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þessar fyrirhuguðu virkjanir muni byggja á Kalina-tækninni þar sem lághita jarðvarmi (100-150 gráður C) er nýttur til raforkuframleiðslu.

Stefnt er að því að hefja boranir á þessu ári en bora þarf niður á 3 til 5 km dýpi eftir vatninu. Áætlað er að raforkuframleiðsla hefjist á árinu 2009.

Í tengslum við þessi leyfi getur Exorka byggt orkuver í Bæjaralandi sem samtals munu framleiða 15-25 MW af raforku á ári. Heildarfjárfesting í þessum virkjunum gæti numið allt að 20 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×