Viðskipti innlent

Kaupþing spáir 4,1 prósents verðbólgu

Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,60 prósentustig á milli mánaða í júní. Gangi það eftir lækkar verðbólga úr 4,7 prósentum í 4,1 prósent.

Greiningardeildin segir í verðbólguspá sinni, sem birt var í dag, að enn sé mikill verðbólguþrýstingur í hagkerfinu og muni hærra eldsneytisverð og áframhaldandi hækkun fasteignaverðs leiða hækkunina í mánuðinum. Þá segir að þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar á síðustu mánuðum hafi það ekki skilað sér út í verðlag. Muni áhrifin af sterku gengi krónunnar koma fram á næstu mánuðum, að mati deildarinnar.

Greiningardeildin spáir því að vísitala hækki um 3,7 prósent á næstu tólf mánuðum og sé útlit fyrir að 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði ekki náð fyrr en í fyrsta lagi á þriðja fjórðungi næsta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×