Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um að hindra lögregluna í starfi og sneri þannig dómi héraðsdóms sem hafði dæmt hann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Manninum var gefið að sök að hafa gert lögreglumanni tálmanir með því að loka hliði á kartöfluakri með streng og leggja fyrir hliðið. Þá var manninum gefið að sök að hafa ýtt við öðrum lögreglumanni á akrinum þegar hann reyndi að hafa tal af ökumanni dráttarvélar og þvingað hann upp að vélinni.
Dómurinn taldi ekki hafa komið fram lögfulla sönnun á þessum tveimur brotum, meðal annars vegna misvísandi framburðar lögreglumanna, og var maðurinn því sýknaður.