Innlent

Litháar dæmdir í sjö ára fangelsi fyrir stórfellt smygl

Tveir Litháar, Sarunas Budvytis og Virunas Kavalciukas, voru í Hæstarétti í dag dæmdir í sjö ára fangelsi fyrir að reyna að smygla nærri tólf kílóum af amfetamíni til landsins.

Mennirnir földu efnið í eldsneytistanki bifreiðar sem þeir fluttu með Norrænu til landsins í fyrrasumar en það fannst við við tollskoðun á Seyðisfirði. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð hefði verið unnt að drýgja efnið og fá úr því um eða yfir 30 kíló af amfetamíni.

Bifreiðin var með breskt skráningarnúmer og í ljós kom að Virunas var ekki á farþegalista heldur landi hans, Arvydas Kepalas, búsettur í Norwich á Englandi, sem einnig var eigandi bifreiðarinnar samkvæmt breskum heimildarskjölum. Sarunas gaf þá skýringu á þessu að hann hefði keypt bifreiðina þremur mánuðum áður og væri því réttur eigandi hennar.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að engum vafa sé undirorpið hverjir hættueiginleikar efnisins séu. Brot mannanna séu þaulskipulögð og að þeir hafi frá upphafi gert sér far um að villa fyrir rannsóknaraðilum.

Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem mennirnir hafa sætt frá 7. júlí í fyrra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×