Innlent

Flugnema dæmdar bætur vegna flugslyss

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag flugkennara og flugskóla til þess að greiða flugnema um 3,8 milljónir króna í skaðabætur vegna flugslyss sem hann lenti í í æfingaflugi árið 2003.

Þá steyptist Cessnea-vél sem hann var á ásamt flugkennaranum í jörðina við rætur Eystra-Miðfells í Hvalfirði með þeim afleiðingum að mennirnir slösuðust báðir og vélin gjöreyðilagðist auk þess sem það kviknaði í henni. Mátu læknar örorku flugnemans 18 prósent.

Maðurinn höfðaði mál á hendur flugkennaranum, flugskólanum og tryggingarfélaginu og sagði flugkennarann hafa sýnt vítavert gáleysi með því að kanna ekki veður á leiðinni frá Borgarfirði til Reykjavíkur en slæmt veður varð meðal annars til þess að vélin hraktist af leið. Á það féllst héraðsdómur og dæmdi flugnemanum skaðabætur vegna slyssins. Tryggingafélagið var hins vegar sýknað á þeim grundvelli að neminn hefði ekki verið farþegi í flugi í skilningi laga um loftferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×