Viðskipti innlent

OR tapaði 6,2 milljörðum króna

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur. Mynd/Vilhelm

Orkuveita Reykjavíkur (OR) tapaði tæpum 6,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er nokkur umsnúningur á rekstri OR en hún skilaði tæplega 1,5 milljarða króna hagnaði á sama tíma í fyrra. Langtímaskuldir OR eru að stærstum hluta í erlendri mynt en gengistap af langtímaskuldum nam 10,8 milljörðum króna á fyrri hluta árs.

Í tilkynningu frá OR til Kauphallar Íslands námu rekstrartekjur fyrirtækisins á fyrri hluta árs 8,5 milljörðum króna en þær námu tæpum 7,2 milljörðum á sama tíma í fyrra.

Þá kemur fram að hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var rúmir 3,8 milljarðar króna samanborið við tæpa 2,9 milljarða krónur fyrir ári.

Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna voru tæpir 2,1 milljarður krónu á fyrstu sex mánuðum ársins en nam 1,5 milljörðum á sama tíma í fyrra.

Fjármagnsliðir voru  neikvæðir um tæpa 11,6 milljarða krónur á tímabilinu sem er viðsnúningur frá sama tíma í fyrra þegar þeir voru jákvæðir um 166 milljónir króna.

Heildareignir OR námu 121,2 milljörðum króna í lok júní en námu 79,5 milljörðum á sama tíma í fyrra.

Þá var eigið fé OR í lok júní 54,1 milljarður króna en var 42,6 milljarðar fyrir ári.

Þá voru heildarskuldir OR í lok júní 67 milljarðar króna en þær voru tæplega 36,8 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni segir að sá hluti starfsemi OR sem lúti að rekstri vatnsveitu og fráveitu verður áfram undanskilinn tekjuskatti en reiknuð tekjuskattsinneign fyrstu 6 mánuði ársins nam tæpum 3,7 milljörðum króna.

Langtímaskuldir OR eru að stærstum hluta í erlendri mynt en gengistap félagsins af langtímaskuldum nam 10,8 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins, að því er fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×