Enska úrvalsdeildarfélagið Portsmouth hefur nokkuð óvænt gert Manchester City kauptilboð í fyrrum landsliðsframherjann Andy Cole hjá Manchester City. Cole er 34 ára gamall og er nýstiginn upp úr erfiðum hnémeiðslum sem hann hlaut undir lok tímabilsins í vor.
Cole hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá Stuart Pearce knattspyrnustjóra City og því verður að teljast harla ólíklegt að hann sé falur. Portsmouth er á höttunum eftir fimmta framherjanum í hóp sinn og hefur augastað á þessum mikla markahrók.
Þá fullyrða talsmenn Portsmouth að stutt sé í að félagið landi portúgalska leikmanninum Manuel Fernandes, en hinn tvítugi miðjumaður Benfica er efstur á óskalista félagsins á leikmannamarkaðunum. Hann stóðst ekki læknisskoðun hjá Portsmouth fyrir nokkru, en félagið er að hugsa um að ganga samt frá samningi við hann - með fyrirvara á því að skila honum ef hann nær sér ekki af meiðslunum.
"Við erum nánast búnir að landa Fernandes og hann er efstur á óskalista okkar, enda frábær leikmaður. Við ætlum annars að reyna að landa 2-3 öðrum leikmönnum áður en glugginn lokar," sagði Peter Storrie, framkvæmdastjóri Portsmouth.