Sam Allardyce hefur látið í veðri vaka að Bolton reyni að lokka til sín framherjann Robbie Fowler ef hann fær ekki framlengingu á samningi sínum við Liverpool. Fowler hélt upp á afmælið sitt í gær með því að skora sigurmark Liverpool gegn Bolton.
"Ég hefði auðvitað ekkert á móti því að fá mann eins og Fowler í mitt lið, en þetta veltur auðvitað allt saman á peningum. Ef hann hinsvegar heldur áfram að skora svona fyrir Liverpool, held ég að þeim detti ekki í hug að selja hann. Vandamál Liverpool hefur verið að skora mörk, en vörnin hjá þeim er frábær - nokkuð sem við gætum lært af sjálfir," sagði Stóri-Sam.