Lið New Jersey Nets vann í nótt sinn 14. sigur í röð í NBA deildinni þegar liðið skellti Charlotte Bobcats 113-102 á heimavelli sínum. Detroit Pistons lagði Miami á útivelli 95-82 og Carmelo Anthony tryggði Denver 110-108 sigur á LA Lakers með skoti á síðustu sekúndum framlengingar.
Sigurganga New Jersey er sú lengsta í NBA deildinni á tímabilinu, en áður hafði Dallas unnið 13 leiki í röð. Richard Jefferson fór á kostum í liði New Jersey og skoraði 40 stig og hirti 11 fráköst og Jason Kidd náði 74. þrennu sinni á ferlinum með 13 stigum, 12 stoðsendingum og 10 fráköstum. Raymond Felton skoraði 20 stig fyrir Charlotte.
Detroit er nú aðeins þremur leikjum frá því að slá félagsmetið í sigrum á tímabili, en liðið vann sinn 61. leik í vetur þegar það skellti Miami á útivelli. Tayshaun Prince og Rasheed Wallace skoruðu 20 stig hvor fyrir Detroit og Rip Hamilton skoraði 19 stig, en Dwayne Wade skoraði 29 stig fyrir Miami og Shaquille O´Neal var með 28 stig. Enginn annar leikmaður Miami skoraði meira en 6 stig í leiknum, en þeir James Posey, Jason Williams og Alonzo Mourning gátu ekki spilað vegna meiðsla. Detroit vann þrjá af fjórum leikjum liðanna í vetur.
Denver vann góðan sigur á LA Lakers í framlengdum leik í Denver sem sýndur var í beinni útsendingu á NBA TV. Leikurinn var gríðarlega sveiflukenndur, en það var að lokum Carmelo Anthony sem reið baggamuninn fyrir heimamenn og skoraði fimmtu sigurkörfu sína fyrir liðið í vetur. Anthony var stigahæstur í liði Denver með 33 stig, en Kobe Bryant skoraði að venju mest hjá LA Lakers eða 42 stig. Hann kom liði sínu í framlengingu með því að skora fjögur stig í einni sókn, en náði ekki að koma sér í skotfæri undir lok framlengingar þar sem skot Luke Walton var víðsfjarri körfunni. Þetta var í 24. sinn sem Bryant skorar yfir 40 stig fyrir Lakers í vetur og þar með sló hann met Elgin Baylor.