Skoðun

Hugmyndafræðileg flatneskja?

Björgvin Guðmundsson (mis)notar sl. fimmtudag stöðu sína á Fréttablaðinu til að lýsa í pistlinum Frá degi til dags, málefnastarfi Heimdallar síðastliðin tvö ár, sem „hugmyndafræðilegri flatneskju". Nú geti hins vegar „frjálshyggjumenn andað léttar" því „hugsjónir Heimdallar lifi góðu lífi" hjá núverandi stjórn, sem nýlega hafi mótmælt kaupum ríkisfyrirtækis á prentsmiðju og að ríkið reki RÚV.

Lesendum til glöggvunar var Björgvin framarlega í hópi þeirra, sem réðu árum saman í Heimdalli, en urðu síðan ítrekað að lúta í lægra haldi í Heimdallar- og SUS-kosningum 2004-6. Er hann því miður iðulega í skrifum sínum fastur í þeim skotgröfum.

Þegar við tókum við stjórn Heimdallar haustið 2004 var starfið að margra mati í lægð, stuðningur ungs fólks við Sjálfstæðisflokkinn langt undir kjörfylgi, var um 23% í alþingiskosningum 2003. Samherjar Björgvins, hinir „sönnu" frjálshyggjumenn höfðu þá farið með völd í Heimdalli árum saman, en náðu ekki betur til ungs fólks en þetta. Þessu þurfti að snúa við og ný stjórn Heimdallar ákvað að leggja, auk hefðbundinna baráttumála frjálshyggju, áherslu á mál, sem sneru að ungu fólki: Húsnæðis- og menntamál, forvarnir, stöðu ungra innflytjenda, borgarmál og mannréttindi fatlaðra, samkynhneigðra og þolenda kynferðisafbrota.

Kapp var lagt á að virkja sem flesta, gera starfið upplýsandi og skemmtilegt. Þetta var seinvirkt grasrótarstarf, sem skilaði sér. Síðastliðinn vetur sýndu reglulegar mælingar á fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að það hafði nær tvöfaldast meðal ungs fólks frá alþingiskosningum 2003. Fleira kemur til en breyttar áherslur í ungliðastarfi, en ég fullyrði að það eigi sinn þátt.

Ég spyr því hvort það sé ekki hugmyndafræðileg flatneskja, ef pólitískt ungliðastarf snýst fyrst og fremst um mikilvægi frjáls markaðar og frelsis einstaklinga? Eiga stjórnmál ekki að snúast um fleira en rekstrarform og verða jöfn tækifæri ekki að fylgja frelsi einstaklingsins? Snúast stjórnmál ekki um aðstæður venjulegs ungs fólks? Ég tel að svo sé og er þess fullviss að það gerir líka ný stjórn Heimdallar, sem við studdum sl. haust, gegn félögum Björgvins. Stóraukinn stuðningur ungs fólks við Sjálfstæðisflokkinn bendir einnig til að það sé okkur sammála.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×