Sport

Guðni hundfúll

"Ég fer ekki leynt með að ég er hundfúll með að koma þessu stórefnilega liði ekki í milliriðil," sagði Guðni Kjartansson, þjálfari U19 ára landslið Íslands í knattspyrnu sem tapaði fyrir Króatíu 3-2 í undankeppni Evrópumóts landsliða þegar liðin mættust í Sarajevo í Bosníu í gær og er þar með úr leik. Bjarni Þór Viðarsson, leikmaður Everton, kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik. Króatar náðu forystunni með tveimur mörkum um miðjan seinni hálfleik. Arnór Smárason, leikmaður Herenveen, jafnaði metin skömmu fyrir leikslok en Króatar skoruðu sigurmarkið á lokamínútu leiksins. Ísland og Bosnía/Hersegóvína eru án stiga eftir tvær umferðir í riðlinum en liðin mætast á morgun. "Við hefðum getað spilað upp á jafntefli en við urðum að vinna og pressuðum þá stíft í lokin en fengum á okkur mark þar sem vörnin var fámenn. Leikurinn var annars þræl skemmtilegur og mér fannst okkar strákar vera sterkari í leiknum þrátt fyrir tapið. En þetta er efnilegt lið og sjö leikmenn eru á yngra ári og verða því aftur með næsta sumar," sagði Guðni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×