Sport

Fyrrum leikmaður Vals í fangelsi

Englendingurinn Mark Ward sem lék með Valsmönnum í efstu deild karla árið 1998 var í dag dæmdur í átta ára fangelsi, eftir að fjögur kíló af kókaíni fundust í íbúð hans í Liverpool í vor. Ward viðurkenndi að hann hefði vitað af eiturlyfjunum í íbúð sinni, en þvertók fyrir að eiga þau sjálfur. Ward var afar vinsæll meðal samherja í herbúðum Vals á sínum tíma og lýsir Sigurbjörn Hreiðarsson fyrirliði Vals sem lék með honum á sínum tíma með Hlíðarendaliðinu sem algjörum toppmanni. "Leiðinlegt að heyra af þessu en svona er þetta, oft vita þessir knattspyrnumenn ekkert hvað þeir eiga að taka sér fyrir stafni að loknum knattspyrnuferlinum. Ward er þessi dæmigerði Englendingur alltaf með eitthvað grín," sagði fyrirliði Valsmanna í viðtali við Fréttablaðið 10. september sl. Ward er að mörgum talinn einhver besti leikmaður Englands sem aldrei hefur leikið með landsliðinu. Ward var lykilmaður í liði West Ham árið 1986 en þá náði félagið sínum besta árangri í efstu deild, þriðja sæti. Auk Vals og West Ham lék Ward með Manchester City og Everton.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×