Skoðun

Hef ég lesið þetta áður?

Guðmundur Magnússon skrifar
Nei, kæri lesandi. Það er harla ólíklegt að þú hafir áður lesið það sem hér stendur. En það getur vel verið að þér finnist að þú kannist við myndina og fyrirsögnina og jafnvel textann. Tilfinningin fyrir því að hafa upplifað eitthvað, séð eitthvað, heyrt eða lesið áður en maður gerir það í reynd í fyrsta sinn er alþekkt. Hún hefur meira að segja eignast fínt fræðiheiti, franskt að uppruna déjà vu. En hvað er þetta og hvað býr að baki? Og hvað er átt við í fyrirsögn hér að ofan að gátan sé loksins ráðin?

Byrjum á almennum fróðleikum um efnið. Sækjum hann í opnu alfræðibókina á netinu, Wikipediu, eða á vísindavef  Hákólans. Greinin sem fér hér á eftir er eftir Jón Gunnar Þorsteinsson bókmenntafræðing og aðstoðarritstjóra Vísindavefsins.

"Déjà vu er upprunalega franska og merkir bókstaflega "þegar séð". Í flestum sálfræðihandbókum er lítið sem ekkert fjallað um fyrirbærið og helst virðist vera byggt á bók Graham Reed, The Psychology of Anomalous Experience: A Cognitive Approach, Hutchinson University Library, London, 1972). Déjà vu nefnist það þegar okkur finnst við hafa upplifað eða séð eitthvað áður, en um leið er eins og upplifunin sé ný. Déjà vu truflar þess vegna veruleikaskynjunina, okkur finnst að skynjun á einhverju fyrirbæri eða aðstæðum sé bæði ný og gömul.Sumir flogaveikisjúklingar virðast upplifa déjà vu oftar en aðrir menn og stundum getur slíkt ástand varað í nokkrar klukkustundir eða sólarhringa. Hjá flestum öðrum varir þetta hins vegar aðeins í nokkrar sekúndur eða mínútur.

Skýringar Reeds á déjà vu eru eftirfarandi: Þegar við upplifum einhverjar nýjar aðstæður eins og við höfum lent í þeim áður, erum við hugsanlega að upplifa sams konar tilfinningaleg viðbrögð við ólíkum aðstæðum. Það eru þess vegna tilfinningalegu viðbrögðin sem eru af sama toga en ekki endilega aðstæðurnar. En vegna endurupprifjunar á tilfinningunni er eins og skynjunin á umhverfinu sé hin sama.

Hin skýringin á déjà vu er sú að þegar við upplifum eitthvað nýtt eins og það sé kunnuglegt sé það í raun og veru svo. Við höfum lent í sams konar aðstæðum áður en náum ekki að rifja þær nákvæmlega upp vegna þess að upplifunin er einhverra hluta vegna bæld niður, ef til vill vegna þess að hún tengist óþægilegum tilfinningum. Þess vegna finnst okkur að upplifunin sé bæði ný og kunnugleg.

Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að ná fram áhrifum déjà vu með dáleiðslu. Ef manni í dáleiðsluástandi er sýnd mynd sem hann er síðan beðinn um að gleyma, finnst honum myndin vera einkennilega kunnugleg þegar hann sér hana aftur eftir að hann hefur verið vakinn.

Í heimsbókmenntunum eru til þekkt dæmi um eins konar déjà vu. Fyrsta bindi stórvirkisins Í leit að glötuðum tíma eftir franska rithöfundinn Marcel Proust (1871-1922) nefnist Leiðin til Swann. Þar er frægur kafli þar sem sem bragð af magdalenusmákökum veldur fyrst eins konar déjà vu og nær síðan að vekja upp horfinn heim í huga söguhetjunnar. Minningar æskunnar sem hafa glatast rifjast upp þegar söguhetjan bragðar á kökunum sem hann hafði borðað í æsku og lyktar- og bragðskynið eru þannig hornsteinar minnisins:

"En þegar fortíðin er liðin undir lok með manni og mús standa lykt og bragð eftir, pastursminni en lífsseigari, loftkenndari, staðfastari, trúrri - um langa hríð halda þau áfram eins og sálir að rifja upp, bíða, vona, á rústum alls hins liðna, að bera uppi án þess að kikna, í allri sinni smæð, hina risavöxnu byggingu minnisins. (Þýð. Pétur Gunnarsson, Leiðin til Swann, bls. 61.)

Ef við setjum þetta í samhengi við kenningar Reeds þá er útfærsla á Proust á déjà vu af seinni gerðinni, það er að segja ástandið vísar til raunverulegra minninga og atburða.

Þekkt kenning gríska heimspekingsins Platons um endurminningu er af líkum toga og upprifjun Proust, nema hvað þar er því haldið fram að það sem við rifjum upp sé ekki nærri gleymdar minningar úr þessu lífi heldur úr öðru og fyrra lífi. Að lifa og læra verður þess vegna upprifjun á fyrra lífi. Kenning Platons um endurminningu nefnist á grísku anamnesis og er ein af rökum Sókratesar fyrir ódauðleika sálarinnar. Hægt er að lesa um hana í Síðustu dögum Sókratesar.

Í lokin er rétt að minna á enn eina skáldlega kenningu um déjà vu. Í myndinni Fylkið (The Matrix, 1999) verður aðalpersónan Neó fyrir déjà vu þegar hann sér sama svarta köttinn tvisvar í röð með örstuttu millibili. Í sýndarheiminum sem Neó og félagar hans eru staddir í, er déjà vu vísbending um að þeir sem skapa heiminn séu að breyta einhverju. Það koma hnökrar á kerfið sem lýsa sér í því að eitthvað gerist aftur nákvæmlega eins og áður”.

Svo mörg voru þau orð á vísindavefnum. Nógu er þetta fróðlegt. En einhverjir munu segja að hér vanti einhverjar skýringar handan viðurkenndra fræða og vísinda. Á sviði svokallaðra hjáfræða eða dulrænna viðfangsefna hafa menn fundið upp á margvíslegum útlistunum á déjà vu og líklega er hin vinsælasta sú að þetta sé ekki tóm tilfinning eða skynvilla heldur raunveruleiki sem skýra megi með því að sá sem fær tilfinninguna hafi raunverulega upplifað reynsluna áður, bara í öðru lífi, til dæmis á öðrum hnetti. Þótt þessi kenning eða einhver útgáfa hennar njóti ekki opinberar viðurkenningar er hún vissulega skemmtileg og góð dægradvöl. Eða þannig.

En þá er komið að nýjustu fréttum. Samkvæmt rannsóknarritgerð sem birt var í desemberútgáfu tímaritsins Current Directions in Psychological Science (og hér má lesa í heild) hafa vísindindamenn nú komið með forvitnilega kenningu sem ef til vill ræður gátuna og hljóðar svo á frummálinu í örfáum orðum:

"Déjà vu may result from (a) a brief change in normal neural transmission speed causing a slightly longer separation between identical messages received from two separate pathways,(b) a brief split in a continuous perceptual experience that is caused by distractions (external or internal) and gives the impression of two separate perceptual events, and (c) the activation of implicit familiarity for some portion (or all) of the present experience without an accompanying conscious recollection of the prior encounter. Procedures that involve degraded or occluded stimulus presentation, divided attention, subliminal mere exposure, and hypnosis may prove especially useful in elucidating this enigmatic cognitive illusion."

Vísindamennirnir setja fyrirvara, enda er þeim kennt það í skólum: "Although a considerable literature concerning déjà vu exists, we are only on the threshold of a scientific exploration of the illusion".

Með öðrum orðum er déjà vu að líkindum blekking sem rekja má til starfsemi heilans, taugaboða og skilningarvita. Komið getur fyrir að upplifun eða skynjun berist til heilans mishratt eftir tveimur leiðum og kalli fram þá ályktunarvillu hugans að um tvær mismunandi skynjanir í tíma og rúmi sé að ræða.

Hvað finnst lesendum? Að þeir hafi lesið þetta áður?

gm@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×