Skoðun

Góður í íslenskur

Smári Jósepsson skrifar
Áður en ég byrjaði að vinna hjá Fréttablaðinu var ég orðinn mjög heyrnarlaus gagnvart íslensku, hvort sem það var í töluðu eða rituðu máli. Það breyttist þó fljótlega við nýja starfið og hefur verið ofarlega í huganum allar götur síðan.

Það sem mér blöskraði mest yfir var hversu margar slettur ég var farinn að nota. Og ég þurfti oftar en ekki að rembast við að þýða af ensku yfir á íslensku, ef til vandræða kom með eitthvað orð.

Ætli ég hafi ekki verið 17 ára þegar ég lagði hlustir við viðtal þar sem þekkt íslensk rokkhljómsveit var á ferð. Í viðtalinu greindi hljómsveitin frá því að hún hefði neyðst til að "cancella" tónleikum. Man enn þann dag í dag hversu mikið þetta skar í eyrun. Mér ofbauð yfir uppátækinu en átti eftir að standa sjálfan mig af þessu þótt síðar yrði.

En það ætti sennilega ekki að koma manni á óvart að íslenskukunnáttu manns hafi hrakað með jöfnu millibili. Slettur, sem áður þóttu hallærislegar, eru orðnar fólki eðlilegar í dag. "Kemur til með að" er mjög gott dæmi.

Velti þessum hlutum fyrir mér með góðum félaga um daginn. Honum hitnaði í hamsi yfir stöðunni, enda íslenskumaður mikill og greinilega ekki á eitt sáttur um framvindu mála. "Það eru blessuðu amerísku áhrifin sem hafa þessi áhrif, hvort sem það er í gegnum tónlist eða bíómyndir. Svo gerum við grín að þjóðverjum og ítölum hversu lélegir í ensku þeir eru, talsetja allt erlent myndefni og innlend tónlist er í hávegum höfð á lagalistum útvarpsstöðvanna. Eru þeir bjánar eða við?".

Nokkuð góður punktur. Erum við betur sett með að leyfa amerískum áhrifum að ná rótfestu hér eða gætum við gert betur í að vera við sjálf?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×