Erlent

Fram með kústinn kerlíng
Alþjóðleg rannsókn hefur leitt í ljós að kvæntir karlmenn taka umtalsvert minni þátt í húsverkunum en karlmenn sem eru í sambúð. Könnuðir við fylkisháskólann í Norður-Karólínu töluðu við yfir 17 þúsund manns í 28 löndum til þess að komast að þessari niðurstöðu.
Stal brú í heilu lagi
Rússneska lögreglan hefur haft hendur í hári manns sem stal brú í heilu lagi í Ryazan héraði austan við Moskvu. Brúin var úr stáli, tvíbreið og fimm metra löng. Maðurinn skrúfaði hana í sundur og hlóð henni á trukkinn sinn. Svo fór hann með hana og seldi hana í brotajárn. Lögreglan í Ryazan héraði segir að þetta sé umfangsmesti þjófnaður ársins.

Bush til bjargar fasteignalánamarkaðnum
Búist er við að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, kynni í dag aðgerðir sem eigi að minnka líkurnar á því að einstaklingar með litla greiðslugetu lendi í vanskilum með fasteignalán sín. Mikil vanskil hjá þessum einstaklingum hefur leitt til mikils samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði og valdið titringi á fjármálamörkuðum.

Rússar ólu á stríðsótta til þess að selja vopn
Rússar gerðu hvað þeir gátu til þess að ala á stríðsótta í Ísrael og Sýrlandi í sumar, til þess að auka vopnasölu sína til Sýrlands, að sögn diplomatisku öryggisþjónustunnar í Ísrael. Snemma í sumar kom upp sá orðrómur að Sýrlendingar hyggðust endurheimta Golan hæðirnar með stríði á hendur Ísrael. Jafnframt var sagt frá liðssafnaði beggja ríkjanna við landamærin.

Kanada fordæmir samninga við Talibana
Utanríkisráðherra Kanada hefur gagnrýnt stjórnvöld í Suður-Kóreu harðlega fyrir að semja við Talibana í Afganistan um lausn gísla sem þeir tóku. Talibanar tóku 23 gísla frá Suður-Kóreu. Tveir þeirra voru myrtir en hinir hafa nú allir verið látnir lausir, eftir miklar samningaviðræður.

Hræringar á Wall Street
Gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum lækkaði lítillega við opnun fjármálamarkaða vestanhafs í dag en óttast er að háir vextir muni draga úr afkomu fjármálafyrirtækja auk þess sem talið er að samdráttur á bandarískum fasteignamarkaði geti hægt á hagvexti. Hagvísar í Bandaríkjunum benda til að hagvöxtur var umfram væntingar á öðrum ársfjórðungi í Bandaríkjunum þótt úr dragi á seinni hluta árs.

Meistaradeildin: Drátturinn í beinni á Vísi.is
Dregið verður í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í dag klukkan 16:00 í Monte Carlo á Suðurströnd Frakklands. Vísir.is sýndi frá drættinum í beinni ústendingu. Fjögur ensk lið eru í pottinum og eru þau öll í fyrsta styrkleikaflokk. Rosenborg er eina liðið frá Norðurlöndunum.

Beljur með nafnskírteini
Bændur í Vestur-Bengal á Indlandi hafa verið skyldaðir til þess að fara með beljur sínar í myndatökur, til þess að útvega þeim nafnskírteini. Þetta er liður í því að koma í veg fyrir stórfellt smygl á þeim til Bangladesh. Meirihluti Indverja eru hindúar og samkvæmt þeirra trú eru þessir jórtrandi ferfætlingar heilagar kýr. Það er bannað að flytja þær úr landi.

Hagvöxtur umfram væntingar í Bandaríkjunum
Hagvöxtur jókst um fjögur prósent í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum tölum bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Hann hefur ekki verið meiri í rúmt ár. Til samanburðar nam hann einungis 0,6 prósentum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er 0,6 prósentum meira en viðskiptaráðuneytis hafði búist við.

Áhrif af fasteignalánamarkaði takmörkuð
Baudouin Prot, forstjóri BNP Paribas, eins stærsta banka Frakklands, varði í dag ákvörðun bankans að skrúfa fyrir þrjá sjóði sína fyrir nokkru til að koma í veg fyrir lausafjárþurrð vegna samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði. Hann segir frönsk fjármálafyrirtæki ekki eiga á hættu að lenda í vandræðum vegna hræringanna í Bandaríkjunum.

Fjármálaráðherra Kína sagði óvænt af sér
Jin Renqing, fjármálaráðherra Kína, hefur sagt af sér. Ákvörðunin kom á óvart en uppsögnin mun vera af persónulegum ástæðum. Skattstjóri Kína tekur við starfi hans en fjármálaráðherrann fyrirverandi mun taka við háttsettri stöðu hjá kínverska kommúnistaflokknum.

Svæfðu Madeleine í hel segja portúgalskir fjölmiðlar
Portúgalar hafa af einhverjum orsökum misst alla samúð með foreldrum Madeleine McCann, litlu bresku telpunnar sem nú hefur verið leitað í fjóra mánuði. Fjölmiðlar í landinu eru uppfullir af allskonar slúðurfréttum um málið.

Bernanke ekki að flýta sér
Seðlabanki Bandaríkjanna ætlar ekki að hlaupa til og lækka stýrivexti. Bankinn vill að fjármálafyrirtæki líti ekki svo á að bankinn eigi að hjálpa fyrirtækjunum úr þeim vanda sem þau hafi komið sér sjálf í. Þetta segir bandaríska dagblaðið Wall Street Journal í dag. Blaðið bendir á að Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri og forveri Ben Bernankes, hafi brugðist við viðlíka hræringum með vaxtalækkun.

Kínverjar reyna að róa Japani
Kínverjar reyndu í dag að róa Japani yfir mikilli hervæðingu sinni, á fundi varnarmálaráðherra landanna. Meðal annars varð að samkomulagi að kínverskt herskip heimsækti Japan og er það í fyrsta skipti í sögu landanna. Kínverjar hafa stóraukið framlög til hermála undanfarin ár, og Japanir hafa af því áhhyggjur.

Hlutabréf hækka í Evrópu og Asíu
Gengi hlutabréfa hækkaði nokkuð á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og Asíu í dag. Þetta er í takti við hækkun á bandarískum hlutabréfamarkaði í gær en fjárfestar vestanhafs segja auknar líkur á að seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti í september til að bregðast við aðstæðum á fjármálamarkaði.

Viðsnúningur á Wall Street
Gengi hlutabréfa hækkaði talsvert á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Ástæðan fyrir hækkuninni er auknar líkur fjárfesta vestanhafs á því að seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum til að koma til móts við þrengingar í bandarísku efnahagslífi. Þá gera sumir þeirra ráð fyrir því að vextirnir lækki fyrr.

Lykillinn sem hefði getað bjargað Titanic
Lykill sem hugsanlega hefði getað forðað Titanic frá því að sigla á ísjakann verður seldur á uppboði í Bretlandi í næsta mánuði. Lykillinn gekk að hirslu sem geymdi sjónauka fyrir útsýnistunnu skipsins. Skipverji sem var á útkíkki þegar Titanic sigldi á borgarísjakann sagði fyrir sjórétti að ef þeir hefðu haft sjónauka hefur þeir séð jakann það mikið fyrr að þeir hefðu getað sveigt frá honum.

Öflugasti her skæruliða í Írak leggur niður vopn
Shía klerkurinn Moqtada al-Sadr hefur skipað Mehdi her sínum að hætta öllum hernaðaraðgerðum í írak í sex mánuði. Þetta eru miklar fréttir því Bandaríkjamenn líta á Mehdi herinn sem mestu ógnina gegn friði og öryggi í Írak. Þessi her er enda öflugastur og best vopnaður af þeim fylkingum sem berjast gegn veru erlendra hermanna í Írak.

OMX sendir spurningalista til Dubai
Stjórn norrænu OMX-kauphallarsamstæðunnar sendi kauphöllinni í Dubai bréf í dag þar sem svara er óskað við nokkrum spurningum svo hægt sé að meta yfirtökutilboð kauphallarinnar í OMX. Nasdaq hafði áður gert yfirtökutilboð í OMX-samstæðuna, sem meðal annars rekur Kauphöllina hér.

Hershöfðingi rekinn eftir morð á rússneskum hermanni
Varnarmálaráðherra Rússlands hefur rekið hershöfðingja sem stjórnaði herstöð þar sem drukknir foringjar börðu ungan óbreyttan hermann til bana. Ill meðferð á ungum hermönnum er landlæg í rússneska hernum. Fjölmörg dæmi eru um að þeir lifi hana ekki af. Átján mánaða herskylda er í Rússlandi og ungir menn gera allt sem þeir geta til þess að komast hjá henni.

Samdráttur hjá DaimlerChrysler
Þýski bílaframleiðandinn DaimlerChrysler hagnaðist um 1,85 milljarða evra, jafnvirði 162 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 14 prósenta samdráttur frá sama tíma á síðasta ári. Hagnaður Chrysler-hluta Daimler og lánaarms fyrirtækisins í Bandaríkjunum jókst um 18 prósent á milli ára.

Bandarískar vísitölur á uppleið
Gengi hlutabréfa hækkaði nokkuð við opnun markaða í Bandaríkjunum í dag eftir lækkun síðustu tvo daga. Lækkunin í gær skýrist af taugatitringi vegna frétta um samdrátt á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum og lækkunar á fasteignaverði. Nú virðist sem verðlækkunin hafi náð til fasteigna í dýrari kantinum.

EMI skiptir um eigendur í september
Eric Nicoli, forstjóri breska útgáfurisans EMI, ætlar að yfirgefa forstjórastólinn þegar nýir eigendur taka við félaginu í næsta mánuði. Félagið hefur átt við mikinn rekstrarvanda að stríða vegna minnkandi geisladiskasölu og fór í söluferli fyrr á árinu. Úr varð að fjárfestingafélagið Terra Firma keypti útgáfufélagið í maí fyrir 2,4 milljarða punda, jafnvirði rúmra 300 milljarða íslenskra króna.

Dregur úr væntingum Þjóðverja
Væntingavísitalan í Þýskalandi lækkaði nokkuð á milli mánaða og hafa Þjóðverjar ekki verið svartsýnni um horfur á næstu mánuðum í hálft ár og nú. Ástæðan fyrir þessu eru þrengingar á bandarískum fasteignamarkaði og spár um að það geti dregið úr hagnaði fyrirtækja og hagvexti á heimsvísu.

Lækkun í Evrópu og Asíu
Gengi hlutabréfa í Evrópu og Asíu lækkaði nokkuð á fjármálamörkuðum í álfunum í morgun. Þetta er í takt við lækkun á bandarískum hlutabréfamörkuðum í gær vegna samdráttar á bandarískum fasteignamarkaði og verri lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Óttast er að samdrátturinn geti leitt til þess að hagvöxtur í Bandaríkjunum dragist saman vegna þessa.

Bakslag í Bandaríkjunum
Helstu vísitölur á bandarískum hlutabréfamarkaði féllu um rúm tvö prósent við lokun markaða í dag. Helstu ástæðurnar fyrir lækkuninni eru minni væntingar neytenda vestanhafs nú en áður í skugga samdráttar á bandarískum fasteignamarkaði. Þá dvína vonir fjárfesta um að bandaríski seðlabankinn kæmi til móts við þrengingar á fjármálamarkaði með lækkun stýrivaxta.

Brann lifandi með fjórum börnum sínum
Tugir manna hafa farist í skógareldunum í Grikklandi og margir eiga um sárt að binda. Sérstaklega þykir þó sorgleg saga 37 ára gamallar móður sem reyndi að flýja eldana ásamt fjórum börnum sínum. Hún átti heima í Aþenu en var í heimsókn hjá móður sinni í smáþorpinu Artemida sem er um 330 kílómetra suðvestur af höfuðborginni.

Bandarískir neytendur svartsýnir
Væntingavísitala bandarískra neytenda tók dýfu í mánuðinum en hún hefur ekki fallið jafn mikið á milli mánaða í tvö ár. Fréttveita Bloomberg segir þetta sýna að neytendur vestanhafs séu svartsýnni nú en áður um horfur í efnahagsmálum vegna viðvarandi lækkunar á fasteignaverði auk þess sem erfiðara er nú en áður að fjármagna fasteignakaup.

Slegist um boðskort á minningarathöfn um Díönu
Hatrammur slagur geisar nú um það í Bretlandi að fá boðskort í minningarathöfn um Díönu prinsessu. Þá eru liðin tíu ár frá dauða hennar. Þannig hringdi fyrrverandi bryti hennar öskureiður í skipuleggjendurna þegar hann fékk ekkert kort. Paul Burrell taldi sig trúnaðarvin hennar. Hann hefur hinsvegar makað krókinn vel á bókum sem hann hefur skrifað um þjónustu sína.

Ryanair rukkar meira
Flugfélög hafa löngum verið lagin við að finna sér matarholur. Lággjaldafyrirtækið Ryanair er nú búið að finna enn eitt gjaldið til þess að leggja á farþega sína. Frá og með tuttugusta september verða farþegarnir að greiða 200 króna aukagjald fyrir að fá að fara um borð í flugvélina sem þeir eiga að ferðast með.