Handbolti

HSÍ ó­sátt við EHF: Skikkaðir á við­burð morguninn eftir langa nótt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Blaðamannafundirnir eru heldur snemma að mati margra, eftir langan gærdag.
Blaðamannafundirnir eru heldur snemma að mati margra, eftir langan gærdag. vísir/Vilhelm

Fulltrúar HSÍ í Herning eru ekki parsáttir við skipulag EHF á úrslitahelginni. Vansvefta starfsmenn voru skikkaðir á fjölmiðlaviðburð í morgunsárið.

Leikmenn íslenska landsliðsins fóru svekktir á hótel liðsins þegar klukkan fór að nálgast miðnætti í gær. Margir áttu þá eftir að undirgangast nuddmeðferð til að flýta fyrir endurheimt fyrir komandi bronsleik við Króata á sunnudag.

Samkvæmt heimildum Vísis var slíkri meðferð sinnt langt fram á nótt, jafnvel undir klukkan fjögur. Nuddmeðferðin er mikilvæg í endurheimtinni, sér í lagi eftir álag undanfarinna vikna þar sem Ísland hefur spilað átta leiki á 15 dögum.

Vegna þessa vildi HSÍ fá tímasetningu á blaðamannaviðburði klukkan 10 í morgun á staðartíma breytt. Sambandið komst lítt áleiðis.

Gætt hefur töluverðrar gremju í garð Evrópska handknattleikssambandsins, EHF, vegna skipulagsmála.

Dagur Sigurðsson, þjálfari Króatíu, óð á súðum á blaðamannafundi í fyrradag og tóku bæði Alfreð Gíslason, þjálfari Þjóðverja, og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslands, undir þá gagnrýni.

EHF gaf út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem því var heitt að lið myndu ekki aftur spila leiki tvo daga í röð, líkt og raunin var hjá Íslandi og Króötum auk annarra liða í milliriðli 2 í Malmö.

Enn virðast hagsmunir leikmanna þó virtir að vettugi þegar kemur að skipulagi sambandsins þessa helgina. Fjölmiðladagskrá fékkst ekki seinkað þrátt fyrir beiðnir þátttökuþjóða um slíkt.

Fulltrúar Sýnar eru á blaðamannasvæðinu á höllinni í Herning og færa frekari fregnir af komandi blaðamannaviðburðum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×