Viðskipti innlent

Einn banki spáir ó­breyttum vöxtum annar hækkuðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir ákvörðun sína næsta miðvikudag.
Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir ákvörðun sína næsta miðvikudag. Vísir/Vilhelm

Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbanka eru ósammaála í spám sínum um stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. Íslandsbanki spáir óbreyttum stýrivöxtum en Landsbankinn spáir 0,25 prósentustiga hækkun.

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun kynna næstu vaxtaákvörðun bankans næsta miðvikudag 4. febrúar. Stýrivextir bankans eru nú í 7,25 prósentum og lækkaði um 0,25 prósentur síðast eftir hálfs árs hlé á vaxtalækkunarferlinu sem staðið hafði frá haustdögum 2024. Líkt og venja er spá greiningardeildir bankanna fyrir um ákvörðun Seðlabankans.

Þrátt fyrir allt á hreinu verðbólgumarkmiði

Greiningardeild Íslandsbanka spáir líkt og áður segir óbreyttum stýrivöxtum. Segir í tilkynningu að þó greinileg kólnunarmerki séu víða í hagkerfinu og skammtíma hagvaxtarhorfur hafi daprast leggi þrálát verðbólga og óhagstæðar verðbólguvæntingar stein í vaxtalækkunargötu bankans um þessar mundir.

„Bankinn er þrátt fyrir allt á hreinu verðbólgumarkmiði og tekur á endanum aðeins tillit til lakari efnahagshorfa og aukins slaka að því marki sem verðbólguþrýstingur minnkar og verðbólguvæntingar lækka vegna þess,“ segir í tilkynningunni.

Spáir Íslandsbanki 0,6 prósent hagvexti í ár og segir að ekki þurfi mikið út af bregða svo vöxturinn snúist í samdrátt. Tvær ástæður séu helst fyrir hægum hagvexti, bakslag í ýmsum útflutningsgeirum og áhrif þess bakslags og hárra raunvaxta á innlenda eftirspurn, ekki síst fjárfestingu sem trúlega muni skreppa nokkuð saman í ár.

„Við spáum því að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum þar til verðbólga fer að hjaðna að marki á ný. Teljum við, þrátt fyrir vangaveltur okkar hér að ofan, að vaxtalækkunarferlið hefjist á ný á vordögum 2026 og varfærin vaxtalækkunarskref verði stigin fram á mitt ár 2027. Hins vegar hefur óvissa aukist um hvort bankinn sjái sér fært að lækka vexti fyrir mitt ár aukist eftir verðbólgutölur janúarmánaðar. Nokkrar líkur eru þannig á að vaxtalækkunarferlið bíði fram yfir mitt ár.“

Undirliggjandi verðþrýstingur enn til staðar

Í tilkynningu á vef Landsbankans segir greiningardeild bankans spá því að peningastefnunefnd hækki stýrivexti um 0,25 prósentustig. Nefndin muni á fundi sínum einnig fjalla um möguleika á að halda stýrivöxtum óbreyttum.

„Verðbólga jókst umfram væntingar í janúar og mældist 5,2%. Aukin verðbólga í janúar skýrist að mestu leyti af hækkun opinberra gjalda, en þó ekki einungis. Mælingin ber þess einnig merki að undirliggjandi verðþrýstingur er enn til staðar. Ekki hefur tekist að draga úr verðbólguvæntingum og kaupmáttaraukning heldur áfram að skila sér í aukinni neyslu.“

Greiningardeildin segir sterk rök vera fyrir hækkun stýrivaxta. Verðbólga hafi ekki mælst hærri síðan í september 2024. 

„Þó rekja megi stóran hluta verðbólguaukningar síðustu tvo mánuði til skatta og gjaldskrárhækkana opinberra stofnana, þá er það ekki eina ástæðan. Innlendar vörur hafa hækkað um rúmlega 7% síðasta árið og þjónustuverðbólga hefur einnig aukist töluvert umfram verðbólgu. Það bendir til þess að kostnaðarhækkunum, meðal annars vegna launahækkana, hefur verið velt út í verðlag. Þá hefur ársbreyting allra kjarnavísitalna einnig hækkað og er vel yfir verðbólgumarkmiði. Sterkt gengi virðist þó hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum og auk þess hefur hægt á hækkunum á reiknaðri húsaleigu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×