Skoðun

Hafnar­fjörður fyrir fólk á öllum ævi­skeiðum

Helga Björg Loftsdóttir skrifar

Það eru forréttindi að búa í Hafnarfirði. Hér ólst ég upp og hér vil ég ala upp börnin mín. Hafnarfjörður er bær með sterkan sjarma og einstaka menningu sem mikilvægt er að vernda og efla. Hér er stutt í allt, mannlíf er fjölbreytt og samfélagið byggir á samheldni, ábyrgð og nánd. Einmitt þess vegna vil ég taka virkan þátt í mótun framtíðar bæjarins.

Hafnarfjörður á að vera bær þar sem fólk getur búið alla ævi. Hér er og á að vera gott að alast upp, stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði og eldast með reisn og öryggi. Til þess þarf skýra framtíðarsýn, pólitíska forgangsröðun og raunhæfar lausnir sem taka mið af ólíkum þörfum íbúa á mismunandi æviskeiðum.

Sterkt samfélag og skýr framtíðarsýn

Við vitum að þjóðin er að eldast og því ber að tryggja eldra fólki bætt lífsgæði og húsnæði sem hentar þeirra þörfum og lifnaðarháttum. Það er ekki aðeins réttlætismál heldur samfélagsleg skylda. Á sama tíma verðum við að standa með ungu fólki sem vill festa rætur í Hafnarfirði og eignast sitt fyrsta heimili. Það krefst markvissrar uppbyggingar, fjölbreytts húsnæðisframboðs og ábyrgrar skipulagsvinnu. Mikilvægt er að eldri Hafnfirðingar upplifi öryggi í nærumhverfi sínu, haft gott aðgengi að þjónustu og félagslífi, rétt eins og það skiptir sköpum að ungt fólk sjái hér framtíð fyrir sér án þess að þurfa að flytja burt.

Ábyrg uppbygging og öflug forysta

Það er gott að búa í Hafnarfirði vegna nálægðarinnar, öflugs íþrótta- og menningarlífs, náttúrunnar og þeirrar þjónustu sem hér er að finna. En til að þessi gæði haldi áfram að blómstra skiptir miklu máli að sveitarfélaginu sé stýrt af fólki með þekkingu, kjark og framtíðarsýn þar með hagsmunir íbúa eru hafðir að leiðarljósi.

Ég vil leggja mitt af mörkum til að Hafnarfjörður verði áfram bær fyrir börn fullorðna og eldri borgara, bær sem setur fólk í forgang, horfir til framtíðar og byggir samfélag sem stenst tímans tönn.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×