Erlent

Verða ekki við­stödd réttar­höld stjúp­sonarins

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hákon krónprins tjáði sig um mál stjúpsonar síns. Þessi ljósmynd er frá árinu 2025 þegar Hákon heimsótti Svalbarða.
Hákon krónprins tjáði sig um mál stjúpsonar síns. Þessi ljósmynd er frá árinu 2025 þegar Hákon heimsótti Svalbarða. EPA

Hákon, krónprins Noregs, og Mette-Marit krónprinsessa verða ekki viðstödd réttarhöld Mariusar Borg Høiby, sonar Mette-Marit. Réttarhöldin hefjast innan viku en meðal 32 ákæruliða sem Marius á yfir höfði sér eru fjórar nauðganir gegn fjórum konum.

„Auðvitað hugsum við mikið til þeirra sem málið snertir. Þetta er eitthvað sem hefur áhrif á þau, fjölskyldur þeirra, þá sem elska þau. Við sýnum þeim umhyggju,“ sagði Hákon samkvæmt norska ríkisútvarpinu.

Sjá nánar: Mál Mariusar Borg Høiby

Á blaðamannafundi í morgun tjáði krónprinsinn sig um mál stjúpsonar síns sem hefur verið ákærður fyrir fjölda brota, þar á meðal kynferðis- og ofbeldisbrot. Hann greindi frá því að hvorki hann né Mette-Marit, móðir Mariusar, verði viðstödd réttarhöldin sem hefjast í næstu viku. 

Sjálfur sinnir Hákon opinberum erindum en Mette-Marit hyggst ferðast erlendis í frí. Hún hefur ekki ákveðið hversu lengi fríið mun vara. Krónprinsessan fór í veikindaleyfi í september vegna lungnasjúkdóms.

Hákon tekur einnig fram að fjölskyldan muni ekki tjá sig neitt um málið á meðan réttarhöldin standa yfir. 

„Marius Borg Høiby er ekki hluti af konungsfjölskyldunni, svo hann er frjáls í þeim skilningi. En við elskum hann auðvitað og hann er mikilvægur hluti af fjölskyldunni okkar,“ sagði Hákon.

„Og hann er norskur ríkisborgari. Vegna þessa hefur hann sömu skyldur og allir aðrir en líka sömu réttindi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×