Handbolti

Læri­sveinar Arons úr leik eftir tap í framlengdum leik

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Kúveit
Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Kúveit

Lærisveinar Arons Kristjánssonar í landsliði Kúveit í handbolta eru úr leik á Asíumótinu eftir tap gegn ríkjandi Asíumeisturum Katar í framlengdum undanúrslitaleik liðanna, lokatölur urðu 27-26 Katar í vil.

Með því að komast í undanúrslit Asíumótsins tryggði Kúveit sér sæti á heimsmeistaramóti næsta árs en í dag beið undanúrslitaleikurinn gegn landsliði Katar sem hefur unnið Asíumótið sex sinnum í röð. 

Leikur liðanna í dag var æsispennandi en alltaf voru það lærisveinar Arons í Kúveit sem að voru skrefi framar og mest náðu þeir sex marka forystu. 

Það eru hins vegar mikil gæði í landsliði Katara og þeir gerðu sterkt áhlaup á Kúveit þegar komið var fram á lokamínútur leiksins og tókst að jafna hann í stöðuna 22-22 þegar að rétt rúm mínúta eftir lifði leiks.

Hvorugu liðinu tókst að finna sigurmarkið fyrir leikslok og því þurfti að grípa til framlengingar. Þar byrjuðu lærisveinar Arons vel og skoruðu fyrstu mörkin, komu sér í stöðuna 24-22. 

Sitthvort markið frá liðunum tveimur kom leiknum í stöðuna 25-23 Kúveit í vil en þá tók við afburðagóður kafli hjá Katar sem skoraði næstu fjögur mörk leiksins og kom sér tveimur mörkum yfir, 25-27. 

Kúveit svaraði með marki frá Saleh Ali og minnkuðu muninn í stöðuna 26-27 en nær komust þeir ekki. Katar fer því áfram í úrslitaleik mótsins en Aron Kristjánsson og landslið Kúveit eru úr leik en eru þó með HM sæti í farteskinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×