Skoðun

Villtur lax má ekki vera fórnar­kostnaður

Dagur Fannar Ólafsson skrifar

Villtur lax, atvinnugrundvöllur bænda og ábyrgð stjórnvalda

Umræða um laxeldi á Íslandi er oft sett fram sem togstreita milli atvinnuuppbyggingar og náttúruverndar. Sú mynd er villandi. Fyrir marga bændur og landeigendur snýst málið ekki um hugmyndafræði, heldur um afkomu, eignir og framtíð byggða sem byggja á heilbrigðum villtum laxastofnum.

Sala laxveiðileyfa er víða stór hluti heildartekna bænda við laxveiðiár og í mörgum tilvikum forsenda þess að búseta og rekstur í dreifbýli standi undir sér. Þessi verðmæti eru ekki tilfallandi, heldur byggð upp á áratugum eða jafnvel öldum, af sjálfbærni nýtingu villtra laxastofna. Þegar villtur lax veikist eða hverfur rýrnar ekki aðeins veiði – heldur verðmæti jarða, réttinda og heilla byggðarlaga.

Ein alvarlegasta og varanlegasta ógnin sem opin sjókvíaeldi skapa er erfðablöndun. Þegar frjór eldislax sleppur úr kvíum og gengur upp í ár blandast erfðaefni hans inn í villta stofna. Þetta er ekki tímabundið umhverfisvandamál, heldur óafturkræf breyting á líffræðilegum grunni stofnanna.

Rannsóknir sýna að blendingar eldis- og villtra laxa hafa almennt minni lífshæfni, breytta hegðun og lakari aðlögun að náttúrulegu umhverfi. Slík áhrif geta leitt til hnignunar stofna yfir margar kynslóðir, jafnvel án þess að um stórfellda sleppingu sé að ræða í hvert sinn.

Ábyrgð stjórnvalda

Hér kemur ábyrgð stjórnvalda skýrt til sögunnar. Nýtt lagareldisfrumvarp setur markmið um vernd villtra nytjastofna og vistkerfa, en í framkvæmd tryggir það fyrst og fremst áframhaldandi uppbyggingu lagareldis sem atvinnugreinar. Verndarsjónarmið eru að stórum hluta óbindandi, háð geðþóttakvörðunum og óljósum reglugerðum. Áhættan er öll hjá landeigendum, bændum og náttúrunni.

Málið snýst þó ekki aðeins um veiði eða efnahag. Villtur lax er lykiltegund í íslenskri náttúru og gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfum áa, vatnasviða og strandhafs. Hann flytur næringarefni, styður líffræðilegan fjölbreytileika og er hluti af náttúrulegu jafnvægi sem við berum ábyrgð á að varðveita.

Í þessu ljósi er rangt að líta á gagnrýni á opið sjókvíaeldi sem sérhagsmunabaráttu veiðiréttarhafa. Hér er um að ræða réttlætismál: hver ber áhættuna af stefnumótun stjórnvalda og hver nýtur ávinningsins.

Ef Ísland ætlar að halda í sína einstöku stöðu hvað varðar villta laxastofna og hreina náttúru þarf stefnumótun um lagareldi að byggja á raunverulegri varúð, skýrri ábyrgð og takmörkunum á opnu sjókvíaeldi. Annars er hætt við að við fórnum varanlegum verðmætum fyrir skammtímaávinning sem aðrir uppskera.

Höfundur er laganemi og leiðsögumaður við laxveiði.




Skoðun

Sjá meira


×