Erlent

Þessi hönd er um sjö­tíu þúsund ára gömul

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Listaverkið í allri sinni dýr. Myndirnar sem eru sýnilegri urðu til þess að vísindamenn urðu ekki þeirrar eldri varir.
Listaverkið í allri sinni dýr. Myndirnar sem eru sýnilegri urðu til þess að vísindamenn urðu ekki þeirrar eldri varir. Nature

Óskýrar útlínur mannshandar sem á vegg hellis í Indónesíu telja fornleifafræðingar vera elsta listaverk sögunnar. Þeir hafa aldursgreint verkið og álíta það vera að minnsta kosti 67.800 ára gamalt.

Myndin hafði lengi dulist fræðimönnum sem hafa lengi rannsakað þær fjölmörgu hellalistaverk í hellinum sem eru talsvert yngri. Hellirinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna á Muna-eyju í Súlavesíeyjaklasanum einmitt vegna fjölda fallegra hellalistaverka. Fornleifafræðingar við Griffith-háskóla í Queensland í Ástralíu sem Guardian ræddi við segja að auk þess að vera elsta listaverk sögunnar veitir höndin dýrmæta innsýn í sögu landnáms í Ástralíu.

Staðsetning hellisins (1) til hægri og mögulegar leiðir landnema í rauðum og bláum.Nature

„Það er hellingur af hellalist hérna en hún er erfið að aldursgreina. Þegar maður getur aldursgreint það opnast manni ný veröld. Þetta veitir manni nána sýn á fortíðina, og nána sýn á þankagang þessa fólks,“ segir Maxime Aubert prófessor í fornleifafræði við Griffith-háskóla.

Manneskjur hafa málað á veggi hellisins Liang Metanduno í tugþúsundir ára. Höndin var þannig að hluta til falin á bak við yngri mynd af einhvers konar ferfætlingi. Myndin segja fornleifafræðingarnir benda til þess að fornir forfeður frumbyggja Ástralíu hafi tekið norðurleiðina svokölluðu til Ástralíu frá meginlandi Asíu. Vegna þess hve mikið lægra yfirborð sjávar var á þessum tíma var Vestur-Indónesía öll tengd og myndaði landið Súndu og sömuleiðis Nýja-Gínea og Ástralía sem mynduðu heimsálfu sem kölluð er Sahúl.

Listaverkið í allri sinni dýr. Myndirnar sem eru sýnilegri urðu til þess að vísindamenn urðu ekki þeirrar eldri varir.Nature

Handarmyndin var gerð með því að spýja munnfyllum af leir sem blandað var við vatn yfir hönd sem ýtt er þétt að hellisveggnum. Höndin á þessari mynd er hins vegar með ónáttúrlega löngum fingrum sem rannsakendurnir telja að rekja megi til listfengi.

„Hvort [fingurnir] eigi að líkjast klóm eða einhvers konar manndýri sem er ekki til vitum við ekki, en það er einhvers konar táknfræði á bak við þá,“ segir Adam Brumm prófessor sem leiðir rannsóknarteymið ásamt fyrrnefndum Maxime Aubert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×