Innlent

Fimm starfslokasamningar kostað Haf­ró 35 milljónir

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar eru í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar eru í Hafnarfirði. Vísir/Egill

Sautján starfslokasamningar hafa kostað atvinnuvegaráðuneytið og undirstofnanir þess rúmar 95 milljónir á undanförnum átta árum. Flestir starfslokasamningarnir hafa verið gerðir hjá Hafrannsóknarstofnun, alls fimm, á tímabilinu frá 2018 til 2025 sem kostað hafa stofnunina tæpar 35 milljónir.

Þetta kemur fram í svari Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra við fyrirspurn Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanns Miðflokksins. Karl Gauti sendi sambærilega fyrirspurn um málið á öll ráðuneyti og hafa svör jafnt og þétt verið að berast. Þegar hefur Vísir greint frá svörum fimm annarra ráðuneyta, en samtals hefur kostnaður þeirra sex ráðuneyta og undirstofnana þeirra numið tæpum 447 milljónum á umræddu tímabili.

Líkt og áður segir voru gerðir fimm starfslokasamningar hjá Hafró á tímabilinu og hefur kostnaður vegna þeirra numið 34.986.106 krónum. Þá hafa verið gerðir þrír starfslokasamningar hjá Ferðamálastofu, Fiskistofu og Matvælastofnun sem hafa reynst misjafnlega kostnaðarsamir fyrir stofnanirnar. Þannig hafa samningarnir kostað Fiskistofu 23.682.030 krónur, Matvælastofnun 12.399.250 og Ferðamálastofu 2.032.418 krónur.

Þá hefur ráðuneytið sjálft gert einn starfslokasamning og nemur kostnaður vegna hans samtals 13.820.246 krónum á árunum 2022 og 2023. Loks kostuðu tveir starfslokasamningar Samkeppniseftirlitið 8.096.363 krónur árið 2018.

Enginn kostnaður mun hafa fallið til vegna starfslokasamninga á árunum 2019 og 2020 en í svörum ráðuneytisins er tekið mið af kostnaði umfram hefðbundinn uppsagnarfrest eða námsleyfi sem starfsmaður eigi lög- eða kjarasamningsbundinn rétt á. „Kostnaður ráðuneytisins tekur til orlofsuppgjörs og launatengdra gjalda. Kostnaður Matvælastofnunar tekur ekki til launatengdra gjalda. Kostnaður vegna starfslokasamninga Fiskistofu tekur til launa-, ferða- og endurmenntunarkostnaðar,” segir í svarinu.

Tekið er einnig fram í svari atvinnuvegaráðherra að á tímabilinu hafi verið gerðar breytingar á málefnasviði ráðuneytisins með forsetaúrskurði, meðal annars eftir að heiti ráðuneytisins var breytt úr matvælaráðuneyti í atvinnuvegaráðuneyti og fleiri málaflokkar færðir til milli ráðuneyta innan stjórnarráðsins á tímabilinu. Þannig nær svar ráðuneytisins aðeins yfir upplýsingar um starfslokasamninga frá Ferðamálastofu, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Samkeppniseftirlitinu, Neytendastofu og Verðlagsstofu skiptaverðs. Engir starfslokasamningar voru gerðir á tímabilinu hjá tveimur síðastnefndu stofnununum.

„Frá febrúar 2022 til marsmánaðar á þessu ári starfaði ráðuneytið undir heiti matvælaráðuneytisins en atvinnuvegaráðuneytið tók til starfa 15. mars sl. Ráðuneytið byggir á grunni málefna sem áður heyrðu undir matvælaráðuneytið. Að auki voru málefni tengd viðskiptum, neytendamálum og ferðamálum færð til ráðuneytisins frá fyrrum menningar- og viðskiptaráðuneyti ásamt málefnum iðnaðar sem voru færð frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Málefni skógræktar og landgræðslu færðust frá ráðuneytinu til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Vegna uppskiptingar ráðuneyta var ekki unnt að afla allra gagna frá því tímabili þegar verkefnin heyrðu undir eldra ráðuneyti,“ segir meðal annars í svari ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×