Skoðun

Bær at­vinnulífsins

Orri Björnsson skrifar

Hafnfirðingar hafa á síðustu árum upplifað mikinn uppgang í atvinnulífinu í bænum. Á þessu kjörtímabili fjölgar skráðum atvinnueignum um á annað þúsund. Fjölmörg fyrirtæki hafa flutt til bæjarins og önnur stóraukið við umsvif sín. Ágætt dæmi um þetta er Icelandair, stærsta fyrirtæki landsins, sem flutti höfuðstöðvar sínar nýverið til Hafnarfjarðar. Það er ánægjuefni að fylgjast með þessari þróun og fátt sem bendir til annars en að hún haldi áfram.

Framboð lóða

Stöðugt framboð góðra lóða er auðvitað forsenda þess að hér verði áfram kraftmikil uppbygging og fjölgun fyrirtækja. Á þessu ári mun Hafnarfjarðarbær halda áfram á sömu braut og undanfarin ár og úthluta tugum lóða undir verðmætaskapandi fyrirtæki. Bygging mun hefjast á yfir eitt hundrað þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði og mikill fjöldi starfa flyst í bæinn. Þetta er ánægjuefni og styður auðvitað við samfélagið á marga vegu.

Kostirnir við að starfa í Hafnarfirði

Það fylgja því margir kostir fyrir fyrirtæki að starfa í bænum, ekki bara fyrir okkur Hafnfirðinga. Eins og flestir vita þá getur ferðatími verið leiðinlega langur á höfuðborgarsvæðinu og ekki bætir stefna vinstri manna í Reykjavík þá stöðu. Þrengingar á götum, tregða við að auka afköst á gatnamótum, ótrúleg árátta að fækka bílastæðum um alla borg og þrengja almennt að fjölskyldubílnum. Þeir sem sækja vinnu til Hafnarfjarðar komast hraðar yfir þar sem þeir aka almennt í öfuga átt við megin umferðarþungann. Það styttir ferðatíma og léttir á gatnakerfinu fyrir hina sem ekki eru svo heppnir að vinna í Hafnarfirði. Svo má ekki gleyma því að við leggjum mikla áherslu á að hafa næg bílastæði hvort sem er á atvinnu- eða íbúðasvæðum bæjarins.

Áfram með atvinnulífinu

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið flokkur atvinnulífsins og þannig verður það áfram. Við munum stilla gjöldum í hóf, hér eftir sem hingað til, og tryggja með öllum ráðum að áfram verði gott framboð lóða fyrir fyrirtæki. Ég legg mikla áherslu á að við aukum framboð af hágæða skrifstofuhúsnæði og lóðum fyrir höfuðstöðvar stærri fyrirtækja. Með því aukum við enn á fjölbreytni atvinnulífsins og gerum fleirum kleift að starfa í bænum. Þannig munum við vinna áfram fyrir Hafnarfjörð.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×