Viðskipti innlent

Kol­efnis­gjöld gætu bætt sex þúsund kalli við flug­kostnað heimila

Kjartan Kjartansson skrifar
Íslensk stjórnvöld niðurgreiða nú losun nokkurra flugfélaga samkvæmt tímabundinni sérlausn sem þau fengu frá hertum reglum um viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir (ETS). Flugfélögin hafa kvartað undan miklum kostnaði við kaup á losunarheimildum. Greining sem gerð var fyrir Alþingi bendir til þess að heildarferðakostnaður fyrir meðalheimili á Íslandi gæti aukist um sex þúsund krónur vegna þessa kostnaðar flugfélaganna árið 2030.
Íslensk stjórnvöld niðurgreiða nú losun nokkurra flugfélaga samkvæmt tímabundinni sérlausn sem þau fengu frá hertum reglum um viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir (ETS). Flugfélögin hafa kvartað undan miklum kostnaði við kaup á losunarheimildum. Greining sem gerð var fyrir Alþingi bendir til þess að heildarferðakostnaður fyrir meðalheimili á Íslandi gæti aukist um sex þúsund krónur vegna þessa kostnaðar flugfélaganna árið 2030. Vísir/Vilhelm

Hugsanlegt er að strangari reglur um losun gróðurhúsalofttegunda frá alþjóðaflugi í Evrópu geti þýtt að það verði sex þúsund krónum dýrara fyrir meðalheimilið að ferðast til útlanda en áður. Efnahagsleg áhrif losunarkerfis á almenning á Íslandi eru sögð hafa verið óveruleg til þessa.

Losun alþjóðaflugs innan Evrópusambandsins fellur undir svonefnt viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) sem Ísland á aðild að í gegnum EES-samninginn. Kerfið hefur virkað þannig að flugfélög fengu úthlutað fríum losunarheimildum en þurftu að greiða fyrir þá losun sem fór umfram þær. Þetta skapar hvata fyrir flugfélög að draga úr losun sinni eða greiða kostnaðinn við hana ella.

ESB er nú að herða reglurnar og er nú hætt að færa flugfélögum endurgjaldslausar losunarheimildir. 

Íslensk stjórnvöld fengu hins vegar undanþágu frá þessu sem felst í að þau geta valið að niðurgreiða losun flugfélaga sem fljúga til og frá landinu með sínum eigin losunarheimildum upp á vissu marki.

Þau færðu þau rök fyrir undanþágunni að hertu reglurnar lægjust þyngra á íslensk flugfélög en evrópskt þar sem flugleggir til og frá Íslandi væru að jafnaði lengri en á meginlandinu. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, lýsti þessum hertu reglum sem „stærsta hagsmunamáli Íslands frá upptöku EES-samningsins“ árið 2023.

Um tvö prósent af flugmiðaverði eins og er

Áhrif viðskiptakerfisins á almenning á Íslandi eru talin óveruleg í skýrslu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur skilað Alþingi. Kostnaðurinn fyrir flugfarþega er talinn óverulegur sem stendur en hann gæti þó hækkað samhliða hækkandi verði á losunarheimildum á þessum áratug.

Gróf greining verkfræðistofunnar Eflu bendir til þess að heildarflugferðaútgjöld meðalheimilis á Íslandi til útlanda geti numið um tíu þúsund krónum, á verðlagi ársins 2024, vegna kostnaðar flugfélaga við kaup á losunarheimildum árið 2030.

Sá kostnaður er talinn hafa numið fjögur þúsund krónum árið 2024 sem þýðir að hærri kolefnisgjöld á flugfélög gæti hækkað kostnað meðalheimilisins við utanlandsferðir um sex þúsund krónur á næstu fimm árum.

Meðalheimili taldi 2,65 manns í manntali árið 2021. Miðað við það næmi kostnaðurinn um 3.800 krónum á mann á ári við lok áratugsins.

Forsenda þessa er að flugfélögin velti kostnaðinum við kaup á losunarheimildum alfarið yfir í verð flugmiða. Efla telur að það hafi þau ekki gert til þessa. 

Íslensk stjórnvöld freista þess nú að framlengja undanþágu sína frá hertu losunarreglunum eftir að núgildandi ívilnun rennur út eftir þetta ár.

Fjárfest meira í loftslagsaðgerðum en hafa fengið inn fyrir losunarheimildir

Efla áætlar að íslensk fyrirtæki hafi keypt losunarheimildir fyrir fimm og hálfan milljarð árið 2024, um 0,12 prósent af vergri landsframleiðslu. Tekjur ríkissjóðs af sölu losunarheimilda sem Ísland fær úthlutað voru 700 milljónir króna í fyrra, um 0,02 prósent af landsframleiðslunni.

Bent er á að þó að íslensk stjórnvöld hafi ekki eyrnamerkt tekjurnar sem þau hafa af sölu losunarheimildanna til þess að fjármagna orkuskipti eða loftslagsaðgerðir þá hafi þau engu að síður varið meira fé í slík verkefni en þau hafa fengið í tekjur af heimildununum undanfarin ár, fyrst og fremst í gengum Loftslags- og orkusjóð.

Lítill hluti fjármunanna hafi þó farið til þeirra fyrirtækja sem bera mestan kostnað af kerfinu.

Almennt er niðurstaða greiningarinnar að gagnsæi hafi skort í flæði fjármuna í kerfinu á Íslandi. Það verði veigameira eftir því sem upphæðirnar hækki.

Umtalsverð áhrif ef dregur úr iðnaði

Evrópsk fyrirtæki hafa kvartað undan því að kolefnisgjöld skekki samkeppnisstöðu þeirra þar sem keppinautar þeirra utan álfunnar þurfi ekki að greiða slík gjöld. Evrópusambandið hefur meðal annars unnið að sérstökum kolefnistollum á innfluttar vörur til þess að freista þess að jafna samkeppnisstöðuna.

Varað er við að ef svörtustu spár fyrirtækja um að evrópskur iðnaður dragist saman vegna viðskiptakerfisins muni það hafa umtalsverð efnahagsleg áhrif á almenning þar sem iðngreinar sem falla undir viðskiptakerfi séu efnahagslega mikilvægar á Íslandi.

„Að sama skapi myndu mjög háar álögu á flug og sjóflutninga hafa umtalsvert meiri áhrif en þau gera í dag,“ segir í greiningu Eflu á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum ETS-kerfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×