Skoðun

Er betra að fólk sé sett á saka­manna­bekk en að stjórn­mála­menn vinni vinnuna sína?

Ólafur Stephensen skrifar

Í síðustu grein var fjallað um það hvernig stjórnmálamenn hafa heykzt á því viðfangsefni sínu að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni sem taki tillit til samfélags- og viðskiptaþróunar undanfarinna áratuga, m.a. þróunar innlendrar og erlendrar netverzlunar. Taldi dómsmálaráðuneytið þó mikilvægt í erindi til Félags atvinnurekenda fyrir fjórum árum að ráðast í slíka endurskoðun. Af henni hefur svo ekki heyrzt meir.

Mismunandi lestur þriggja ráðherra á lögunum

Það er forvitnilegt að skoða ummæli ráðamanna um áfengislöggjöfina og netverzlun með áfengi undanfarin ár. Í þættinum Dagmálum, sem birtist á mbl.is 21. júlí 2021 og einnig var greint frá í Morgunblaðinu sama dag, lýsti Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra því mati sínu að netverzlanir með áfengi störfuðu „innan ramma EES-samstarfsins.“ Jafnframt sagðist hann eiga erfitt með að sjá að netverzlun með áfengi stangaðist á við lög og að hann fagnaði netverzlun með áfengi, hún væri frábær viðbót.

Í viðtali við mbl.is 14. júní 2023 sagði Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, sem fór með málefni áfengislöggjafarinnar, að hann gæti ekki dregið aðra ályktun en þá að vefverzlun með áfengi væri lögmæt.

Núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, sem fer nú með málefni áfengislöggjafarinnar, sagði í viðtali við sama miðil 5. janúar sl., aðspurður um ákæru og aðrar aðgerðir lögreglu gagnvart vefverslun með áfengi: „Álit okkar, dómsmálaráðuneytisins og ytri aðila, er svo að það sé í sjálfu sér engin óvissa og þetta snúist bara um að framfylgja lögunum. Menn geta tekist á um hvort lögin eigi að vera svona eða einhvern veginn öðruvísi en ég tek ekki undir það að það sé óvissa í lögunum.“

Það er hlutverk stjórnvalda, ríkisstjórnar og Alþingis, að setja löggjöf sem er skýr og skiljanleg borgurunum. Það að ráðherrar og þingmenn skilji löggjöfina með gjörólíkum hætti eins og þessar tilvitnanir bera vott um, sýnir betur en ýmislegt annað þörfina á því að endurskoða hana og skýra, þannig að fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum viti að hverju þau ganga.

Ráðherra í mótsögn við sjálfan sig

Í viðtali á Rás 2 hinn 6. janúar sl. lýsti Víðir Reynisson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, þeirri skoðun að leiðin til að skýra áfengislöggjöfina hvað varðaði netverzlun með áfengi væri að ákæra lögreglunnar á hendur forsvarsmanni Kjútís, félagsmanns FA sem rekur netverzlun með áfengi, færi fyrir dómstóla. Að dómi fengnum gæti svo farið að fjármála- og efnahagsráðuneytið setti fram tillögur að breytingu á löggjöfinni, sem færu svo í samráðsferli og mögulega til afgreiðslu á Alþingi.

Í áðurnefndu viðtali við mbl.is virðist fjármála- og efnahagsráðherra lýsa sömu skoðun, þegar hann segir: „Oft er það þannig að túlkun laga þróast í gegnum dómstóla. Það er ekki heppilegt og betra er ef lög eru þannig að það þurfi ekki en þetta er ekki einsdæmi.“ Þessi ummæli ráðherra benda raunar til þess að hann telji löggjöf um netverzlun með áfengi alls ekki skýra – en því hafði hann hafnað litlu framar í viðtalinu og sagt að ekkert væri óskýrt í löggjöfinni.

Verkefni stjórnmálanna slegið á frest ...

Félag atvinnurekenda sendi Daða Má erindi fyrr í vikunni og lýsti sig algjörlega ósammála þeirri skoðun að bezt sé að löggjöfin þróist fyrir tilstilli dómstóla. Svo virðist sem stjórnmálamenn, þar með taldir fjármála- og efnahagsráðherra og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, treysti sér ekki til að fara í þá endurskoðun áfengislöggjafarinnar, sem er löngu tímabær, og kjósi að slá viðfangsefninu á frest með því að láta ákæru á hendur félagsmanni FA ganga sína leið fyrir dómstólum.

... og einstaklingar frekar settir á sakamannabekk

Fremur en að sinna þeirri skyldu sinni að hafa frumkvæði að því að laga löggjöfina að þróun samfélags og tækni, kjósa þeir að setja einstaklinga á sakamannabekk, því að í ákærunni á hendur forsvarsmanni Kjútís er þess krafizt að viðkomandi verði dæmdur til fangelsisrefsingar. Það er svo áleitin spurning, fari svo að dómstólar dæmi félagsmann FA til refsingar fyrir að starfa á grundvelli ákvæða EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga, hvort forsvarsmenn allra hinna fyrirtækjanna sem stunda netverzlun með áfengi við íslenzka viðskiptavini, þar á meðal stjórnendur hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum, fái sömu meðferð hjá valdinu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×