Handbolti

Ýtt í menn ef þeir eru ekki 110 prósent

Valur Páll Eiríksson skrifar
Einar Þorsteinn er klár í slaginn.
Einar Þorsteinn er klár í slaginn. Vísir/Sigurður Már

Einar Þorsteinn Ólafsson er fyrst og fremst spenntur fyrir komandi Evrópumóti karla í handbolta. Hann kveðst meðvitaður um að það reyni á þolinmæðina eftir tækifærum á mótinu.

Einar Þorsteinn er mættur á sitt þriðja stórmót með landsliðinu og segir það hægt og rólega venjast, að taka þátt í slíkum stórviðburði.

„Maður er kannski ekki eins mikið að fylgjast með öllu í kringum sig dag frá degi. En spennan og stressið fylgir manni ennþá, allavega á þriðja mótinu, ég veit ekki hvernig það verður á nítjánda eða tuttugasta móti. Ég er enn með sama spenninginn og ógeðslega spenntur að fá að vera hérna,“ segir Einar.

Klippa: Einar Þorsteinn klár í slaginn

Sérlega mikill kraftur á æfingu

Strákarnir mættu til Kristianstad í Svíþjóð í gær þar sem riðillinn verður leikinn næstu vikuna eða svo. Einar segir sérlega mikla einbeitingu og hörku hafa einkennt fyrstu æfinguna eftir komuna í gær.

„Hún var mjög góð á miðað við ferðalag og allt sem gekk á í dag. Það var alvöru kraftur og hiti hjá leikmönnum á æfingu. Það er gott, það er það sem við viljum, að krafturinn sé til staðar sama við hvaða aðstæður,“ segir Einar og segir undirbúning almennt hafa gengið nokkuð vel í Frakklandi áður en komið var til Svíþjóðar.

„Við fengum loksins hörku æfingaleiki til að prófa sig. Það var flest plúsar í því. Í dag er fyrsti dagurinn sem maður finnur að þetta sé að byrja. Ég er mjög spenntur að vera kominn hingað núna,“ segir Einar en Ísland vann Slóveníu og tapaði naumlega fyrir Frökkum í tveimur æfingaleikjum um helgina síðustu.

Klár þegar kallið kemur

Andinn í hópnum sé þá almennt góður og menn einbeittir á komandi verkefni.

„Á æfingum verður maður að vera 110 prósent, annars er maður ekki beint skammaður en það er ýtt í mann. Þess er til ætlast af öllum að halda þessu stigi og við vitum að á svona móti tapar maður ef það er gefið eftir. Þú spilar eins og þú æfir,“ segir Einar. En hvernig hlutverki býst hann við á komandi móti?

„Ég vonast eftir því besta. Ég er klár þegar kallið kemur. Það er erfitt að vita ekki hvenær það kemur en ég verð alltaf klár og bíð spenntur,“ segir Einar.

Ítalir eru fyrsta verkefni Íslands á föstudaginn. Í riðlinum eru einnig Pólverjar og Ungverjar. Ítalska liðið er sérstök áskorun en liðið spilar það sem mætti kalla óhefðbundinn handbolta.

„Það er skrýtið að fá allt öðruvísi lið í fyrsta leik. Þeir eru eins og Stuttgart í þýsku deildinni, mikið með sex útileikmenn. Maður vill hæð til að stoppa maður á mann en ef maður fer of hátt leysa þeir inn. Þá verður kaós ef maður er með of mikla hæð svo það snýst um að finna jafnvægið inn á milli. Þetta snýst mjög mikið um að vinna einvígin, maður á mann,“ segir Einar.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×