Innlent

Ljósvistarhönnuður hoppar hæð sína af gleði vegna breytinga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ljósvistarhönnuður er ánægður með þá viðurkenningu sem felst í því að fjallað er um ljósvist í nýbreyttri byggingareglugerð. Hann kveðst áfram berjast fyrir því að tekið sér mið af ljósvist þegar hverfi eru skipulögð.
Ljósvistarhönnuður er ánægður með þá viðurkenningu sem felst í því að fjallað er um ljósvist í nýbreyttri byggingareglugerð. Hann kveðst áfram berjast fyrir því að tekið sér mið af ljósvist þegar hverfi eru skipulögð. samsett

Eitt af síðustu verkum Ingu Sæland í ráðuneyti húsnæðismála var að skrifa undir breytingu á byggingarreglugerð og bæta við kröfum um ljósvist. Ljósvistarhönnuður sem barist hefur fyrir þessu í mörg ár segir að bjartari tímar séu fram undan.

Hin síðustu ár hefur fólk í auknum mæli vaknað til vitundar um mikilvægi ljósvistar í íbúðahúsnæði. Þessi aukna meðvitund hefur ekki aðeins komið til af góðu því við uppbyggingu margra af nýbyggingum landsins hefur einmitt ekki verið tekið tillit til ljósvistar og hafa hugtök eins og skuggavarp orðið fyrirferðarmeiri í umræðu um skipulagsmál. 

Áður en Inga Sæland færði sig yfir í barna- og menntamálaráðuneytið, breytti hún byggingareglugerð þar sem í löngu máli er fjallað um ljósvist. Taka þurfi mið af dagsbirtu og útsýni til að tryggja góða ljósvist í vistarverum. Guðjón L. Sigurðsson ljósvistarhönnuður segir þetta tímamót.



„Þetta er málefni sem við erum búin að vera að berjast fyrir í mörg ár og loksins hefur orðið að veruleika og þetta breytir okkar faglegu aðkomu að málum heilt yfir.“

Með þessu skrefi hafi ljósvist öðlast ákveðinn sess og aukna viðurkenningu.

„Við getum sagt það að innivist helgist af þremur þáttum, hljóði, lofti og ljósi. Hingað til hefur hljóðvist verið viðurkennd og samþykkt sem eitthvað sem menn segja að sé nauðsynlegt, sama er með loftið. Það þarf að vera gott loft og súrefni en ljósið hefur ekki fengið þá viðurkenningu sem okkur þykir það þurfa að fá og sem dæmi var stóra dæmið árið 2016 þegar Nóbelsverðlaun voru veitt þeim sem gátu sannað það að ljós hefði áhrif á heilsu manna.“

Síðan þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að ljós og dagsbirta hafi til að mynda áhrif á hormónastarfsemi líkamans.

Erum við þá að fara að sjá fram á bjartari tíma fram undan?

„Ekki spurning. Þetta á að vísu ekki að taka gildi að fullu fyrr en 2027, á næsta ári, og í öllu skipulagi á nýjum svæðum. Við höfum svolítið verið að berjast fyrir því að ná ljósvistinni inn í skipulag, deiliskipulag, hverfisskipulag og aðalskipulag og að það verði fjallað um það og í skipulagi verði tekið tillit til þess þegar byggð er skipulögð.“

Nánar er hægt að lesa um breytingarnar og efni um hljóðvist á vefsvæði Stjórnarráðsins.


Tengdar fréttir

Græna gímaldið ljótast

Niðurstöður liggja fyrir í kosningu Arkitektúruppreisarinnar, áhugamannahóps um framtíð arkitektúrs, um nýbyggingu ársins, bæði þá fallegustu og ljótustu. Græna gímaldið við Álfabakka 2a var valin ljótasta nýbyggingin og Hafnarstræti 75 á Akureyri sú fallegasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×