Sport

Lifandi styttan í stúkunni grét í leiks­lok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Nkuka Mboladinga stuðningsmaður Kongó stendur hreyfingarlaus í stúkunni allar níutíu mínúturnar í leikjum fótboltalandsliðs þjóðarinnar.
Michel Nkuka Mboladinga stuðningsmaður Kongó stendur hreyfingarlaus í stúkunni allar níutíu mínúturnar í leikjum fótboltalandsliðs þjóðarinnar. Getty/Abu Adem Muhammed

Ævintýri Kongó á Afríkumótinu í fótbolta lauk í gærkvöldi og þar með lauk aðkomu nú hins heimsfræga Michel Kuka Mboladinga að mótinu.

Mboladinga studdi Kongó-liðið með því að breyta sér í lifandi styttu til heiðurs Patrice Lumumba, fyrsta forsætisráðherra Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó á sjöunda áratugnum.

Lumumba var táknmynd sjálfstæðisbaráttu Kongó og var myrtur árið 1961 með samsekt belgískra og bandarískra stjórnvalda, sem litu á afríska þjóðernishyggju hans sem ógn í kalda stríðinu.

Mboladinga stóð hnarreistur, stoltur og hreyfingarlaus allan leiktímann í hverjum einasta leik þjóðar sinnar á þessu Afríkumóti. Hann vottaði einum mikilvægasta leiðtoga lands síns virðingu á alþjóðavettvangi.

Hann flutti áhrifamikinn óð til kongóskrar andspyrnu og fræddi aðdáendur um allan heim um baráttusögu þjóðar sinnar.

Kongó er aftur á móti úr leik eftir 1-0 tap í framlengdum leik á móti Alsír í sextán liða úrslitum keppninnar. Það þýddi ekki bara níutíu mínútur af því að standa kyrr með reistan hnefa heldur 120 mínútur.

Mboladinga lét sig nefnilega ekki vanta í leikinn í gær en eftir að leiknum var lokið og leikmenn Kongó höfðu þakkað fyrir stuðninginn brotnaði kappinn niður.

Mboladinga sást bæði þurfa tárin upp á pallinum sem og gráta þegar hann var sestur niður í stúkuna.

Kongó fór alla leið í undanúrslitin á síðasta Afríkumóti en varð nú að sætta sig við tap í sextán liða úrslitum. 

Landslið þjóðarinnar á enn möguleika á því að komast á HM í sumar en til þess að svo verði þurfa Kongómenn að vinna Nýju Kaledóníu eða Jamaíka í FIFA-umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×