Skoðun

Eru Fjarðarheiðargöng of löng? (og aðrar mýtur í um­ræðunni)

Stefán Ómar Stefánsson van Hagen skrifar

Í umsögnum um Fjarðarheiðargöng segir Samgöngufélagið:

„…væri t.d. fróðlegt að sjá hvað aukinn búnað þarf til að tryggja öryggi í göngum sem leiðir af hinni miklu lengd þeirra, en sem fram hefur komið eru þau tíundu lengstu veggöng í heimi, hvorki meira né minna.“ (áhersla greinarhöfundar).

Þarna er gefið í skyn að 13,2 km jarðgöng séu óðs manns æði. Að þau verði tíundu lengstu veggöng í heimi og því er það fásinna að ráðast í verkið. Vegagerðin svarar þessari umsögn skilmerkilega í “Viðbrögðum við umsögnum” m.a. aðgengileg á heimasíðu Vegagerðarinnar. En hvenær er verk of stórt?

Kárahnjúkastífla varð stærsta stífla sinnar tegundar í Evrópu á þeim árum. En ef orðalagið er skoðað eru jarðgöng sem fara í topp tíu í heimi algert glapræði, eins og áður segir. En hvað ef það komu göng síðan þessi umsögn var gerð sem gerir Fjarðarheiðargöng “bara” elleftu lengstu í heimi?

West Connex opnaði árið 2023 í Sydney, Ovit í Tyrklandi sömuleiðis. Muzhailing í Ganzu 2024, Tianshan Shengli í Xinjang 2025. Umsögnin er frá júlí 2022. Þarna eru komin nokkur göng síðan. Þá eru Fjarðarheiðargöng komin niður í 17 sæti. Því að þarna er reyndar rangfært að þau hefðu á þessum tíma orðið tíundu lengstu veggöng heims.

Þá má skoða verkefni sem eru á dagskrá í heiminum í dag – en ég ætla að láta Evrópu duga:

Rogfast, Noregi. Flotgöng, veg- og járnbraut: 26,7 km, opnar 2033

Förbifart, Svíþjóð. 16,5 km, opnar 2030

Fehmarn belt, Danmörk/Þýskaland. Botnfest einingagöng, veg- og járnbraut: 17,6 km, opnar 2029

Suðuroyartunnilin, Færeyjar. Undir hafsbotni, 26 km á undirbúningsstigi, opnar eftir 2030

Þrenn göng komast uppfyrir áætluð Fjarðarheiðargöng ef farið yrði í þau núna og gert ráð fyrir sjö ára framkvæmdatíma, þá gætu göngin í Suðurey einnig farið framúr, ef ný samgönguáætlun á að taka gildi. Þá eru Fjarðarheiðargöng “bara” komin í 22. sætið og fjölmörg önnur göng enn ekki nefnd hér, á framkvæmda- eða undirbúningsstigi. Þannig að þetta er kannski ekki svo rosalegt.

Mig langar svo að nefna göngin undir Brenner Pass, sem reyndar eru járnbrautargöng. Þau tengja Innsbruck í Austurríki við tæplega 1000 manna bæ í Ítölsku ölpunum, sem kallast Franzensfeste og eru 55 km long (64 um aðgöng (en: bypass). Kostnaðurinn er 1,5 milljón milljarðar íslenskra króna. Einhverjum datt í hug að reikna kostnað Fjarðarheiðarganga á fjölda íbúa á Seyðisfirði, en þar var gleymt að ferja Smyril Line og fjöldi skemmtiferðaskipa

kemur í fjörðinn á ári hverju. Ef maður vill má maður sjálfur reikna 1,5 milljón milljarða á höfðatöluna 1000 en það „meikar ekkert sens“, frekar en að reikna kostnað Fjarðarheiðarganga á höfðatölu íbúa Seyðisfjarðar.

Að lengd eða kostnaður ganganna sé til fyrirstöðu er varla rétt, nema það þjóni pólitískum tilgangi. Kostnaður er metinn aðeins 6 ma. hærri en við svökölluð “Fjarðagöng” sem nú voru sett framfyrir í drögum að nýrri samgönguáætlun. Ætlun þeirra sem tala hæst fyrir “Fjarðagöngum” er svo þriðju göngin undir Mjóafjarðarheiði, sem ekki eru mikið ódýrari en Fjarðaheiðargöng. Það besta í stöðunni fyrir Austurland er að byrja á Fjarðarheiðargöngum, sem eru tilbúin til útboðs og fara síðar í “Fjarðagöngin” (Mjóafjarðar- og Seyðisfjarðargöng, bæði um Mjóafjörð til Fannardals í Norðfirði). Einhverjir virðast halda að það sé hægt að gera þrjú göng á svæðinu fyrir sama verð og ein Fjarðarheiðargöng. Það er alrangt og mjög skrítin stærðfræði á bak við þær kenningar.

Eru göng um Öxnadalsheiði (með neikvæðari arðsemi en Fjarðarheiðargöng, með sambærilega eða minni áætlaða umferð, sérstaklega eftir byggingu “Fjarðaganga”) uppá 11 km þá í lagi? Eða 22 km göng á Tröllaskaga? Eða á sama svæði, tvenn göng um Skíðadal, samanlagt ca. 29 km. og bæði göngin um og yfir 13 km? Þetta er kynnt sem raunhæfir möguleikar hjá Vegagerðinni og einnig sbr. þingsályktunartillögu á 155. Löggjafarþingi, þingskjal 105. Verðin eru 34-67 ma. Eru þau verkefni “fjárhagslega forsvaranleg”? Innviðaráðherra var meðal flutningsmanna tillögunnar.

Eru 10 km max-ið fyrir göng á Íslandi? Má þá ekki bara gefa það út? Eða gildir að bara á Austfjörðum?

Þessi umræða er komin langt út fyrir staðreyndir málsins. Fjarðarheiðagöng eru samþykkt af Alþingi, þau eiga að vera næstu göng – og Austfirðingar eiga að standa saman að þeim og tryggja Fjarðagöng í kjölfarið.

Höfundur er alþjóðaviðskipta- og stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×